Hagnaður Smáralindar árið 2007 nam 156 milljónum króna, en árið 2006 var hann 238 milljónir. Hagnaður fyrir  matsbreytingar, afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 797 mkr. sem er um 7,5% aukning frá árinu 2006. Handbært fé frá rekstri nam  455 mkr. samanborið við 342 mkr. árið 2006. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Heildareignir félagsins í lok árs 2007 námu 15.237 milljónum og eigið fé á sama tíma var 6.451 milljón.

Gestum Smáralindar fjölgaði um 9% milli áranna 2006 og 2007 og velta í verslunum Smáralindar jókst á árinu.

Í tilkynningunni segir að gert sé ráð fyrir að tilkoma Norðurturns á hluta lóðar Smáralindar muni hafa veruleg og jákvæð áhrif á starfsemi verslunarmiðstöðvarinnar í framtíðinni, en gert er ráð fyrir að framkvæmdum við hann ljúki haustið 2009.