Hagnaður Sorpu b.s. á árinu 2008 nam 4,2 milljónum króna en var 161,2 milljónir árið 2007.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu en Sorpa b.s er byggðasamlag, sem stofnað er í samræmi við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Tilgangur byggðasamlagsins er að annast sorpeyðingu fyrir sjö sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu, sem öll eru stofnaðilar að því.

Hagnaður fyrir fjármagnsliði og afskriftir nam 250,5 milljónum króna á árinu en var 307,2 milljónir króna á árinu 2007.

Rekstrartekjur samlagsins námu 2.048,6 milljónum króna árið 2008 samanborið við 2.006,2 milljónir árið 2007 sem er 2,1% hækkun.

Rekstrargjöld, án afskrifta og fjármagnsliða voru 1.798,2 milljónir króna samanborið við 1.699,1 milljón árið 2007 og er hækkunin tæp 6%.

Heildareignir samlagsins 31. desember 2008 námu 1.885,9 milljónum króna og heildarskuldir 778,8 milljónum króna.

Eigið fé 31. desember 2008 var 1.107 milljónir króna og hafði aukist um 8,4 milljónir frá því í upphafi árs. Eiginfjárhlutfall var tæp 59% en var í lok síðasta árs rúmlega 60%.

Handbært fé frá rekstri á árinu 2008 var 383,9 milljónir króna en var árið 2007 262,8 milljónir króna. Veltufjárhlutfall í árslok 2008 var 1,2 og handbært fé nam 290,5 milljónum króna. Fjárfestingarhreyfingar ársins 2008 námu 216,9 milljónum krona og fjármögnunarhreyfingar tæpar 137,4 milljónum króna.