Eignaleigufyrirtækið SP-Fjármögnun hagnaðist um 416 milljónir eftir skatta á fyrri hluta ársins. Hagnaður eftir skatta á sama tíma í fyrra nam 473 milljónum króna og er því um 12% samdrátt í hagnaði að ræða á milli ára.

Hreinar tekjur fyrirtækisins voru rétt rúmir 1 milljarður króna og er um að ræða 6% aukningu ef litið er til sama tímabils í fyrra. Rekstrarkostnaður jókst hins vegar um 14,4% frá fyrra ári.

Veiking krónunnar hefur þau áhrif á fyrirtækið að efnahagsreikningur stækkar mikið, en mjög stór hluti útlána SP-Fjármögnunar er gengisbundinn. Eiginfjárhlutfall félagsins (CAD hlutfall) reiknað á grunni Basel II reglna er 10,9%.

Vanskil hafa aukist 0,6% frá ársbyrjun og námu í lok júní tæpu 1% af heildarútlánum fyrirtækisins.

Í fréttatilkynningu segir að afkoma sé í samræmi við áætlanir þrátt fyrir að mikið hafi hægt á nýjum útlánum og vanskil hafi aukist. Þá segir að reksturinn sé traustur.