Sparisjóðabanki Íslands skilaði 1,7 milljarða króna hagnaði eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins 2006. Á sama tíma í fyrra nam hagnaðurinn 765 milljónum króna, samsvarar það 129,9% hækkun, segir í tilkynningu. Hagnaðurinn svarar til 50,8% arðsemi eigin fjár. Þetta er mesti hagnaður bankans á hálfu ári.

Sparisjóðabanki Íslands er viðskiptabanki í eigu allra sparisjóða á landinu. Bankinn leggur áherslu á
heildsöluviðskipti og fjárfestingarbankastarfsemi. Samanlagt eru sparisjóðirnir stærsti viðskiptamannahópur bankans en auk þess á hann viðskipti við fjölmörg fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki innan lands og utan.

Mikill hagnaður nokkur undanfarin misseri hefur styrkt stöðu bankans verulega. Sparisjóðabankinn er því vel í stakk búinn að hefja sókn til áframhaldandi vaxtar og verða áform þar að lútandi kynnt síðar á árinu, segir í tilkynningu.

Hreinar vaxtatekjur námu 603 milljónum króna á fyrri hluta þessa árs en voru 394 milljónir á sama tímabili 2005 sem gerir 53,1% hækkun. Hagnaður af verðbréfaeign bankans er meginuppistaðan í liðnum hreinar rekstrartekjur sem nam 1,8 milljörðum króna fyrir skatta en var 890 milljónir á sama tímabili í fyrra.

Eigið fé bankans hækkar úr 5,7 milljörðum króna í árslok 2005 í 8,1 milljarð í lok júní 2006 eða um 41,3%.

Gjaldfærsla vegna virðisrýrnunarinnar nemur 12 milljónum króna en var 85 milljónir á sama tímabili í fyrra. Kostnaðarhlutfall bankans nam var15,8% á fyrri hluta þessa árs en var 24,1% á sama tímabili í fyrra.

Þetta er í fyrsta sinn sem alþjóðlegum reikningsskilastöðlum (IFRS) er beitt við uppgjör Sparisjóðabankans. Samanburðarfjárhæðum vegna fyrra árs hefur verið breytt til samræmis við nýju reikningsskilareglurnar og eru niðurstöður hálfsársuppgjöra nú og í fyrra því sambærilegar.