Hagnaður Sparisjóðabanka Íslands jókst um 200,5% á milli ára, segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Hagnaður eftir skatta nam 2,4 milljörðum í fyrra og hefur aldrei verið hærri í sögu bankans. Á árinu 2004 var hagnaður eftir skatta 806 milljónir króna.

Sparisjóðabanki Íslands er viðskiptabanki í eigu allra sparisjóða á landinu. Hann er reikningsbanki (seðlabanki) sparisjóðanna og þjónustubanki þeirra á sviði erlendra viðskipta, lausafjárstýringar og fjármögnunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum.

Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 54,3% árið 2005 samanborið við 28,5% árið 2004. Arðsemin hefur aldrei verið eins há í sögu bankans og er með því besta sem gerst hefur hjá íslensku fjármálafyrirtæki, segir í fréttatilkynningu.

Efnahagsreikningur bankans óx úr 46,1 milljörðum króna í árslok 2004 í 65,6 milljarða króna í árslok 2005, eða um 42,1%. Í árslok 2003 var stærð efnahagsreikningsins 37,6 milljarða. Þessa breytingu má alfarið rekja til innri vaxtar bankans, segir Sparisjóðabankinn.

Mikill viðsnúningar varð á árinu á stöðu sparisjóða gagnvart bankanum. Útlán til þeirra námu 16,3 milljörðum í árslok 2005 samanborið við 9,3 milljarða í árslok 2004. Innlán þeirra í bank¬anum námu 16,7 milljörðum í árslok 2005 en 13,6 milljörðum í árslok 2004. Samkvæmt þessu lækkaði nettóinneign þeirra í bankanum úr 4,3 milljörðum í árslok 2004 í 0,4 milljarða í árslok 2005.

Hreinar vaxtatekjur halda áfram að hækka og hafa aldrei verið hærri í sögu bankans. Þær námu 823 milljónum króna samanborið við 629 milljónir árið 2004. Hækkunin milli ára er 30,9%. Í fyrsta sinn um langt árabil standa hreinar vaxtatekjur undir öllum rekstrarkostnaði bankans að viðbættu framlagi í afskriftareikning útlána, segir Sparisjóðabankinn.

Aðstæður á innlendum og erlendum hlutabréfamörkuðum voru óvenjuhagstæðar árið 2005. Það kemur glöggt fram í öðrum rekstrartekjum bankans sem námu 2,951 milljörðum, samanborið við 1,233 milljarða 2004. Hækkunin nemur 139,3%.

Hreinar rekstrartekjur bankans námu 3,774 milljörðum, samanborið við 1,86 milljarða árið 2004. Hækkunin milli ára nemur 102,7%.