Hagnaður Sparisjóðabanka Íslands nam 806 milljónum króna eftir skatta og hefur aldrei verið meiri. Árið á undan var hagnaður bankans 163 milljónir króna. Þetta þýðir að hagnaðurinn nær fimmfaldaðist á milli ára.

Sparisjóðabanki Íslands hf. er viðskiptabanki í eigu allra sparisjóða á landinu. Hann er einkum reikningsbanki (seðlabanki) sparisjóðanna og þjónustubanki þeirra á sviði erlendra viðskipta, lausafjárstýringar og fjármögnunar á innlendum og erlendum fjármálamörkuðum. Sparisjóðirnir eru stærstu viðskiptamenn bankans en auk þess á hann viðskipti við fjölmörg fjármálafyrirtæki og önnur fyrirtæki innan lands og utan. Fjórir hluthafar eiga meira en 10% hlut í bankanum. Þeir eru Sparisjóður Reykjavíkur og nágrennis (24,7%), Sparisjóður Hafnarfjarðar (14,8%), Sparisjóður vélstjóra (14,1%) og Sparisjóðurinn í Keflavík (11,7%). Bankinn hefur gefið út skuldabréf sem skráð eru í Kauphöll Íslands. Hlutabréf bankans eru hins vegar ekki skráð þar.

Helstu niðurstöður endurskoðaðs uppgjörs Sparisjóðabankans fyrir árið 2004 eru þessar:

· Hagnaður eftir skatta nam 806 m.kr. og hefur aldrei verið hærri í sögu bankans. Hagnaður eftir skatta í fyrra nam 163 m.kr. Hækkun milli ára er 394,3%.

· Arðsemi eigin fjár eftir skatta var 28,5% árið 2004 samanborið við 7,0% árið 2003. Arð­semin hefur aldrei verið eins góð í sögu bankans.

· Efnahagsreikningur bankans óx úr 37,6 ma.kr. í árslok 2003 í 46,1 ma.kr. í árslok 2004, eða um 22,6%. Þetta er mikill viðsnúningur eftir samdrátt bæði árið 2002 og 2003.

· Útlán til annarra viðskiptamanna en banka og sparisjóða hækka úr 11,0 ma.kr. í árslok 2003 í 14,8 ma.kr. í árslok 2004, eða um 35,0%. Útlán til sparisjóða lækka hins vegar milli ára úr 10,0 ma.kr. í árslok 2003 í 9,3 ma.kr. í árslok 2004. Á sama tíma hækka inn­lán sparisjóða í bankanum um 1,2 ma.kr. og námu 13,6 ma.kr. í árslok 2004. Innlán sparisjóðanna umfram útlán hækkuðu því um 1,9 ma.kr. á árinu. Þetta sýnir glöggt sterka lausafjárstöðu sparisjóðanna en er jafnframt vísbending um að dregið hafi úr mikilvægi þeirra sem lántaka í bankanum. Á móti hefur bankinn í aukn­um mæli lánað til annarra lántaka, bæði hér á landi og erlendis, án þess þó að keppa við sparisjóðina um slík útlán.

· Hreinar vaxtatekjur hafa aldrei verið hærri í sögu bankans. Þær námu 629 m.kr. samanborið við 541 m.kr. árið 2003. Hækkunin milli ára er 16,2%.

· Breytt samsetning útlána bankans hefur leitt til þess að heildarvaxtamunur hefur hækkað í 1,6% samanborið við 1,4% árið 2003 og 1,0% árið 2002.

· Aðstæður á skuldabréfamarkaði og hlutabréfamarkaði voru óvenjuhagstæðar árið 2004. Það kemur fram í öðrum rekstrartekjum bankans sem námu 1.233 m.kr. samanborið við 476 m.kr. árið 2003. Hækkunin nemur 158,8%. Af þessari fjárhæð má rekja rúmlega 800 m.kr. til eignarhlutar bankans í fjárfestingarfélaginu Meiði sem er stærsti hluthafinn í Bakkavör Group, Kaupþingi Búnaðarbanka og Medcare Flögu.

· Hreinar rekstrartekjur bankans fóru annað árið í röð yfir 1 ma.kr. og námu 1.862 m.kr. samanborið við 1.018 m.kr. árið 2003. Hækkunin milli ára nemur 83,0%.

· Önnur rekstrargjöld hækka um 11,1% milli ára og nema 654 m.kr. Þar af nemur hækkun launa og launatengdra gjalda 19,4% sem skýrist að stórum hluta af samningsbundnum launahækkunum bankamanna og af uppgjöri við starfsfólk sem lét af störfum. Meðalfjöldi starfsfólks á árinu var 55 samanborið við 54 árið 2003 og fjöldi stöðugilda í árslok 2004 var 53, einu færra en í árslok 2003.

· Kostnaðarhlutfall bankans heldur áfram að lækka. Það nam 35,1% árið 2004 samanborið við 57,9% árið 2003. Þessa góðu útkomu má fyrst og fremst rekja til mikillar hækkunar á tekjum bankans.

· Eiginfjárhlutfall bankans (CAD) nam 11,8% í árslok 2004 og lækkar úr 14,3% frá árinu áður. Lækkunin skýrist að mestu leyti af því að efnahagsreikningur bankans (áhættugrunnur) hefur stækkað milli ára. Markmið bankans er að eiginfjárhlutfallið sé á bilinu 10-12%. Eiginfjárþáttur A nam 6,9% í árslok 2004 samanborið við 9,8% í árslok 2003.