Methagnaður varð á rekstri sparisjóðanna og Sparisjóðabankans á fyrri hluta ársins 2005. Alls nemur hagnaðurinn 4.582 milljónum króna eftir skatta. Þetta kemur fram í milliuppgjöri sparisjóðanna. Aldrei fyrr hafa sjóðirnir skilað jafn góðri afkomu.

Athygli vekur að hagnaðurinn á fyrstu sex mánuðum ársins er aðeins 6% minni en hann var allt árið 2004. Til samanburðar var hagnaðurinn af rekstri sparisjóðanna eftir skatta 4.872 milljónir króna allt síðasta ár.

Heildareignir sparisjóðanna voru í lok uppgjörtímabilsins 317.933 milljónir króna. Þær höfðu aukist um 38.109 milljónir króna frá áramótum. Eigið fé í ársbyrjun nam 28.010 milljónum króna. Arðsemi eigin fjár á fyrri hluta þessa árs er 32,7%. Athyglisvert er að arðsemi minnstu sparisjóðanna er sambærileg við þá stærstu.

Samkvæmt milliuppgjörinu námu hreinar vaxtatekjur sparisjóðanna 4.359 milljónum króna fyrstu sex mánuði ársins, samanborið við 8.391 milljónir króna allt árið 2004. Hreinar rekstrartekjur voru 11.092 milljónir króna í samanburði við 17.722 milljónir króna á síðasta ári. Hagnaður fyrir skatta nam 5.531 milljón króna á fyrri hluta ársins en var 5.873 milljónir króna allt árið 2004.

Sparisjóðirnir á Íslandi eru alls 23 og starfsmenn þeirra um 900 talsins. Sparisjóðirnir þjóna á milli 60 og 70 þúsundum einstaklinga eða sem nemur fjórðungi allra viðskiptavina á einstaklingsmarkaði. Sparisjóðirnir hafa undanfarin sex ár komið best út allra fjármálafyrirtækja í Íslensku ánægjuvoginni, viðamikilli könnun IMG Gallup á viðhorfum landsmanna til 25 fyrirtækja í mismunandi atvinnugreinum