Hagnaður Sparisjóðs Bolungarvíkur fyrir fyrstu sex mánuði ársins 2006 nam 71,7 m.kr. fyrir skatta samanborið við 75,6 m.kr á sama tímabili 2005.

Í fréttatilkynningu til Kauphallarinnar segir að hagnaður eftir skatta hafi numið 61,3 milljónum en var 66,7 milljónir á sama tíma fyrir ári.

Helstu niðurstöður:

Arðsemi eigin fjár var 13,1% en var 14,9% fyrir sama tímabil 2005.

Vaxtatekjur Sparisjóðsins námu á tímabilinu 289,4 m.kr. en það er 56,2% hækkun frá sama tímabili árið áður.

Vaxtagjöld hækkuðu um 92,8% á tímabilinu og námu 219,7 m.kr.

Hreinar vaxtatekjur námu því 69,7 m.kr. samanborið við 71,4 m.kr. á sama tímabili árið áður.

Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðu fjármagns, var 2,51% á tímabilinu en 4,25% á sama tímabili árið áður.

Aðrar rekstrartekjur voru 99,2 m.kr. en voru 117,7 m.kr. á sama tímabili árið áður.

Önnur rekstrargjöld námu alls 76,1 m.kr. og lækkuðu um 8,1% frá sama tímabili árið áður. Laun og launatengdgjöld lækkuðu um 13,8% og annar almennur rekstrarkostnaður stóð í stað.

Kostnaðarhlutfall á tímabilinu var 49,9% á móti 43,5% á sama tíma árið áður.

Framlag í afskriftareikning útlána var 21,0 m.kr. en var 30,7 m.kr. á sama tímabili árið áður. Sem hlutfall af niðurstöðu efnahagsreiknings var framlagið 0,36% en var 0,63% á sama tímabili árið áður.

Heildarinnlán í Sparisjóðnum ásamt lántöku námu í lok júní 3.493 m.kr. og er aukningin því 6% á tímabilinu.

Útlán sparisjóðsins ásamt markaðsskuldabréfum námu 4.316 m.kr. í lok júní 2006 og höfðu aukist um 316 m.kr. eða um 5,2% á fyrstu 6 mánuðum ársins.

Í lok tímabilsins var niðurstöðutala efnahagsreiknings 5.841 m.kr. og hafði hún hækkað um 982 m.kr. eða 20,2% á tímabilinu. Eigið fé Sparisjóðsins í lok júní nam 979 m.kr. og hefur eigið fé aukist um 116,9 m.kr. eða 13,5%. Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins samkvæmt CAD-reglum er 24,63% en var 22,77% á sama tíma árið áður.

Í lok tímabilsins var stofnfé 168,6 m.kr. og voru stofnfjáraðilar 215 talsins.

Rekstur Sparisjóðs Bolungarvíkur gekk vel fyrstu 6 mánuði ársins 2006 og er hagnaðurinn samkvæmt áætlunum. Sparisjóðurinn býr að sterkri lausafjárstöðu og eiginfjárstöðu og er því vel í stakk búinn til að takast á við ný verkefni og hefur alla burði til að auka lánastarfsemi sína á samkeppnishæfum kjörum.
Stjórnendur Sparisjóðsins gera ráð fyrir að afkoma fyrir árið 2006 í heild verði góð og í samræmi við afkomuna fyrstu 6 mánuði ársins.