Hagnaður Sparisjóðs Mýrasýslu jókst um 220% á milli ára að því er kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar. Hagnaður síðasta árs var 615,6, samanborið við 192,2 milljónir króna fyrir árið 2004. Aukningin milli ára er 220,2%.

Vaxtatekjur námu 1.833,5 millj. kr. árið 2005 en það er 51,3% hækkun frá árinu 2004. Vaxtagjöld hækkuðu um 63,5% milli ára og námu 1.233,9 millj. kr. árið 2005.

Hreinar vaxtatekjur námu 649,7 millj. kr. árið 2005 og hækkuðu því um 32,6% á milli ára. Hreinar rekstrartekjur voru 1.701,8 millj. kr. á árinu á móti 917,3 millj. kr. árið 2004. Hreinar rekstrartekjur hafa hækkað um 85,5% á árinu 2005.

Framlag í afskriftarreikning útlána nam 284,0 millj. kr. á árinu sem er hækkun um 29,5% frá árinu 2004. Í árslok 2005 eru 524,9 millj. kr. í afskriftareikningi útlána sem er 2,3% af útlánum og veittum ábyrgðum sparisjóðsins.

Rekstrargjöld sparisjóðsins voru 667,2 millj. kr. árið 2005 en voru 473,9 millj. kr. árið 2004, hækkunin er 41,1%.

Rekstrarkostnaður sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum er 39,2% miðað við 51,6% fyrir árið 2004. Rekstrarkostnaður sem hlutfall af eignum er nú 2,6% miðað við 3,0% árið 2004.

Sparisjóður Mýrasýslu eignaðist allt stofnfé í Sparisjóði Ólafsfjarðar í byrjun apríl 2005. Í samanburðartölum samstæðunnar fyrir árið 2005 kemur efnahagur Sparisjóðs Ólafsfjarðar að fullu inn, en rekstur hans frá 1. apríl 2005.