Hagnaður Sparisjóðs Svarfdæla nam 107 milljónum króna á árinu 2007, samanborið við 902 milljónir á árinu 2006.

Vaxtatekjur sparisjóðsins á árinu 2007 námu 362 millj. kr. og vaxtagjöld 299 millj. kr.  Hreinar vaxtatekjur námu því 63 millj. kr. samanborið við 114 millj. kr. á árinu 2006.

Aðrar rekstrartekjur, sem samanstanda að stærstu leyti af tekjum af hlutabréfum, voru 263 millj. kr. á árinu samanborið við 1.187 millj. á árinu 2006.

Gengishagnaður ársins 2006 var óvenju hár, einkum sökum þess að eignarhlutir sjóðsins í Exista hf. og Kaupþingi banka hf. voru að fullu færðir úr fjárfestingarbók í veltubók.

Órói á fjármálamörkuðum með tilheyrandi verðfalli hlutabréfa hafði umtalsverð áhrif á afkomu sparisjóðsins á síðari hluta ársins 2007.

Rekstrarkostnaður lækkar milli ára

Rekstrarkostnaður ársins 2007 nam alls 190 millj. kr. og lækkaði um rúmlega 5 millj. kr. frá árinu 2006.  Framlag í afskriftareikning útlána nam 19 millj. kr. á árinu 2007 en var 14 millj. kr. á árinu 2006.  Afskriftareikningur útlána í hlutfalli af útlánum og veittum ábyrgðum nam 3,3% í árslok sem er sama hlutfall og í árslok 2006.

Heildarinnlán í sparisjóðnum í árslok námu 2.849 millj. kr. og jukust þau um 496 millj. kr. á árinu.  Útlán sparisjóðsins námu 2.471 millj. kr. í lok árs og jukust þau um 334 millj. milli ára.

Heildareignir í árslok 2007 námu 6.347 millj. kr. samanborið við 4.909 millj. í árslok 2006.  Eigið fé sparisjóðsins í árslok nam 2.337 millj. Stofnfé sparisjóðsins var aukið um 500 millj. kr. að nafnverði undir lok árs 2007 og þá var 200 millj. kr. ráðstafað til byggingar á Menningarhúsi á Dalvík.  Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins samkvæmt CAD-reglum var 21,1% í árslok 2007 en var 21,0% í árslok 2006.

Sterk eiginfjárstaða

„Hagnaður ársins er vissulega minni en á síðasta ári enda var afkoman þá og raunar árin á undan afskaplega góð. Sparisjóðurinn er talsvert háður þróuninni á hlutabréfamörkuðum þar sem aðstæður breyttust eins og kunnugt er um mitt síðasta ár. Staða sparisjóðsins um síðustu áramót var engu að síður mjög sterk sem sést meðal annars á því hvað eiginfjárhlutfall sjóðsins er hátt,” segir Friðrik Friðriksson, sparistjóðsstjóri.

Tillaga um 53 milljóna arð

Fyrir aðalfund leggur stjórn sjóðsins til að greiddar verði rúmar 53 milljónir í arð til stofnfjáreigenda eða 10%.