Hagnaður Sparisjóðs Svarfdæla nam á árinu 2004 183,5 millj. kr. samanborið við 68,2 millj. kr. á árinu 2003. Arðsemi eigin fjár var 41,7% samanborið við 18,4% arðsemi á árinu 2003.

Vaxtatekjur sparisjóðsins á árinu 2004 námu 236,2 millj. kr. og vaxtagjöld 76,8 millj. kr. Hreinar vaxtatekjur námu því 159,3 millj. kr. samanborið við 157,3 millj. kr. á árinu 2003. Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðu fjármagns var 6,1% á móti 6,9% á árinu 2003. Aðrar rekstrartekjur voru 232,6 millj. kr. á árinu og hækka um 126,8 millj. kr. frá fyrra ári sem stafar einkum af söluhagnaði hlutabréfa í Kaupþingi Búnaðarbanka hf., en hann nam 101,6 millj. kr., auk gengishagnaðar af markaðsverðbréfum, enda markaðir hagstæðir á árinu 2004.

Rekstrarkostnaður ársins 2004 nam alls 125 millj. kr. samanborið við 116 millj. kr. á árinu 2003. Kostnaðarhlutfall, það er rekstrargjöld sem hlutfall af hreinum rekstrartekjum, var 31,9% á árinu samanborið við 44,1% árið áður.

Framlag í afskriftareikning útlána nam 41,7 millj. kr. á árinu 2004 en var 64 millj. kr. á árinu 2003. Afskriftareikningur útlána í hlutfalli af útlánum og veittum ábyrgðum nam 5,3% í árslok en hlutfallið í árslok 2003 nam 8,2%.

Heildarinnlán í sparisjóðnum í árslok námu 1.870,6 millj. kr. og jukust þau um 162 millj. kr. á árinu. Útlán sparisjóðsins námu 1.461,4 millj. kr. í lok árs og jukust þau um 252,1 millj. milli ára eða 20,8%.

Heildareignir í árslok 2004 námu 2.754,1 millj. kr. samanborið við 2.269,6 millj. í árslok 2003. Eignir sparisjóðsins jukust því um 484,5 millj. kr. á árinu 2004. Eigið fé sparisjóðsins í árslok nam 622,2 millj. kr. og jókst það um 182,6 millj. kr. á árinu eða um 41,5%. Eiginfjárhlutfall sparisjóðsins samkvæmt CAD-reglum var 20,6% í árslok 2004 en var 19,5% í árslok 2003.

Sparisjóður Svarfdæla rekur tvær afgreiðslur sem starfræktar eru á Dalvík og í Hrísey. Stöðugildi í lok árs voru 11. Sparisjóðsstjóri er Friðrik Friðriksson.

Aðalfundur sparisjóðsins verður haldinn 28. apríl nk.