Hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík eftir skatta á fyrstu sex mánuðum ársins var tæplega 1.036 milljónir króna, en á sama tíma í fyrra var hagnaðurinn 501,4 milljónir króna, sem er aukning upp á 106,6%, segir í tilkynningu til Kaupallarinnar.

Fyrir skatta var hagnaður á fyrstu sex mánuðum ársins tæpar 1.219 milljónir króna , en á sama tíma í fyrra var hagnaður Sparisjóðsins 610,1 miljónir króna.

Þetta er mesti hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík á einum árshelmingi og er arðsemi eiginfjár 55% sem er ein sú mesta frá stofnun sjóðsins.

Sparisjóðurinn segir að áætlanir bendi til að afkoman verði góð á árinu 2006.