Hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík á fyrstu sex mánuðum ársins nam rúmum 610 milljónum króna fyrir skatta. Hagnaður eftir skatta var 501 milljón króna en á sama tímabili á síðasta ári var 363,1 milljónar króna hagnaður. Í tilkynningu frá sjóðnum kemur fram að aðallega sé um að ræða gengishagnað af annarri fjármálastarfsemi.

Fram kemur í tilkynningu sjóðsins að arðsemi eigin fjár var 37,4%. Vaxtatekjur Sparisjóðsins námu á tímabilinu 1237,7 milljónum króna en það er 25,4% hækkun frá sama tímabili árið áður. Vaxtagjöld hækkuðu um 31,6% á tímabilinu og námu 757,7 milljónum. Hreinar vaxtatekjur námu því 480 milljónum samanborið við 411,1 milljón króna á sama tímabili árið áður.

Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur í hlutfalli af meðalstöðu fjármagns var 3,52% á tímabilinu en 4,05% á sama tímabili árið áður. Framlag í afskriftareikning útlána var 151,7 milljónir en var 161,8 milljónir á sama tímabili árið áður. Sem hlutfall af niðurstöðu efnahagsreiknings var framlagið 0,54% en var 0,79% á sama tímabili árið áður.

Heildarinnlán í Sparisjóðnum ásamt lántöku námu í lok júní 20.985 m.kr. og er aukningin því 11,48% á tímabilinu. Útlán Sparisjóðsins ásamt markaðsskuldabréfum námu 23.773 m.kr. í lok júní 2005 og höfðu aukist um 2.690 m.kr. eða um 12,8% á fyrstu 6 mánuðum ársins.

Sparisjóðurinn rekur fimm afgreiðslur sem starfræktar eru í Keflavík, Njarðvík, Garði, Grindavík og Vogum. Höfuðstöðvar Sparisjóðsins eru í Keflavík og þar er Viðskiptastofa SPKEF einnig til húsa. Starfsmenn Sparisjóðsins eru um 84.