Afkoma Sparisjóðs Hafnarfjarðar batnaði verulega á árinu 2004, jókst hagnaður eftir skatta um 72,4%, sem er með því besta í sögu Sparisjóðsins, þrátt fyrir hátt framlag í afskriftarreikning útlána. Fjárfestingar Sparisjóðsins í hlutabréfum er sá liður sem mestri ávöxtun skilar, en hlutabréfaverð hækkaði mikið á árinu.

Hagnaður Sparisjóðs Hafnarfjarðar árið 2004 af rekstri sjóðsins nam 406 milljónum króna fyrir skatta samanborið við 162 milljónir króna árið 2003, en það er aukning um 151% frá árinu 2003. Þegar tekið hefur verið tillit til skatta var hagnaðurinn 319 milljónir króna, sem er aukning eins og áður sagði um 72,4% miðað við árið 2003. Ársreikningurinn er gerður eftir sömu reikningsskilaaðferðum og síðasta ár.

Vaxtatekjur námu 2.879 milljónum króna, jukust um 8,8% milli ára, en vaxtagjöld námu 1.685 milljónum króna, sem er 13,1% aukning. Hreinar vaxtatekjur námu því 1.195 milljónum króna, en voru 1.156 milljónir króna á árinu 2003, og var aukningin því 3,3% á milli ára. Vaxtamunur, þ.e. hreinar vaxtatekjur sem hlutfall af heildarfjármagni, er nú 3,5% af heildarfjármagni í samanburði við 4,1% árið áður.

Markaðsviðskipti sparisjóðsins gengu vel, enda markaðir hagstæðir á tímabilinu. Gengishagnaður af innlendum og erlendum veltuverðbréfum nam 576 milljónum króna, samanborið við 152 milljónir króna á árinu 2003. Alls numu aðrar tekjur sparisjóðsins 1.153,6 milljónum króna, samanborið við 568,6 milljónir króna árið 2003, sem er aukning um 103%.

Rekstrargjöld námu 1.381 milljón króna samanborið við 1.201 milljón króna á árinu 2003, sem er 15,0% aukning á milli ára. Hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum á tímabilinu var 58,8% og lækkaði úr 69,6% frá síðasta ári. Laun og launatengd gjöld námu 700 milljónum króna en voru 618 milljónir króna á árinu 2003, jukust þau um 13,3% milli ára. Annar rekstrarkostnaður nam 596 milljónum króna en var 491 milljón króna á árinu 2003, jókst um 21,4% á milli ára.

Framlag í afskriftareikning útlána nam 561 milljón króna, en á árinu 2003 nam framlagið 363 milljónum króna. Afskriftareikningur útlána nam 537 milljónum króna í árslok 2004 sem svarar til 2,0% af útlánum og veittum ábyrgðum, en hlutfallið í árslok 2003 var 2,3%. Framlag í afskriftareikning útlána endurspeglar þó ekki endilega töpuð útlán, heldur er um að ræða fjárhæð sem lögð er til hliðar til að mæta hugsanlegum útlánatöpum.

Efnahagur

Heildareignir Sparisjóðsins í árslok 2004 námu 38.584 milljónum króna og hafa því aukist um 9.762 milljónir króna frá áramótum 2003, eða um 33,9%.

Útlán Sparisjóðsins námu 25.959 milljónum króna í árslok 2004 og jukust því um 5.029 milljónir króna frá árinu 2003, eða um 24%, eftir samdrátt tveggja síðustu ára. Útlán sparisjóðsins voru um 67,3% af heildareignum Sparisjóðsins í árslok.

Markaðsverðbréf námu samtals 4.051 milljón króna í árslok. Skuldabréf námu 3.055 milljónum króna og óskráð skuldabréf 139 milljónum króna. Hlutabréf námu 996 milljónum króna, þar af óskráð hlutabréf 624 milljónum króna. Skráð verðbréf Sparisjóðsins eru færð á markaðsvirði en óskráð bréf eru færð á kaupverði eða ætluðu markaðsverði hvort heldur sem lægra reynist.

Innlán Sparisjóðsins námu 16.239 milljónum króna í árslok 2004 og hafa því aukist um 2.159 milljónir króna frá árinu 2003, eða um 15,3%, Námu innlán því 42,1% af niðurstöðu efnahagsreiknings Sparisjóðsins. Lántaka Sparisjóðsins jókst um 89,9% á árinu og nam 11.481 milljón króna í árslok.

Eigið fé Sparisjóðs Hafnarfjarðar nam 3.082 í árslok 2004 og hefur því aukist um 326 milljónir króna milli ára, eða um 11,8%. Eiginfjárhlutfall Sparisjóðsins í árslok var 12,2%, en var 11,4% í árslok 2003. Samkvæmt CAD-reglum má eiginfjárhlutfall ekki vera lægra en 8%.