Hagnaður Sparisjóðsins í Keflavík fyrir árið 2007 nam 2,2 milljörðum króna fyrir skatta samanborið við 5,7 milljarða árið áður. Hagnaður eftir skatta nam 1,8 milljörðum samanborið við 4,7 milljaða árið áður. Arðsemi eigin fjár var 15,2%

Líklega má telja, að í ljósi aðstæðna á fjármálamörkuðum í upphafi ársins 2007, verði arðsemi Sparisjóðsins í Keflavík ekki eins góð árið 2008 og hún var árið 2007 segir í tilkynningu frá Sparisjóðnum í Keflavík.

Að sögn Geirmundar Kristinssonar sparisjóðsstjóra er afkoma ársins 2007 viðunandi í ljósi þróunar á mörkuðum seinni hluta ársins 2007.

Seldu í Exista en keyptu í ICEBANK

Á árinu seldi Sparisjóðurinn í Keflavík hluta af hlutabréfaeign sinni í Exista til Kistu-fjárfestingarfélags, en eignarhlutur Kistu í Exista nam 8,9% í lok árs 2007.

Kista fjárfestingarfélag er hlutdeildarfélag Sparisjóðsins í Keflavík og var eignarhlutur Sparisjóðsins í Keflavík í Kistu 34,25% í lok árs 2007.

Í Nóvember jók Sparisjóðurinn í Keflavík við eignarhlut sinn í ICEBANK og nam eignarhluturinn 19,44% í árslok 2007.

Innlán og útlán aukast um 100%

Heildarinnlán í Sparisjóðnum námu í lok árins 2007 38,9 milljörðum króna og höfðu aukist um 19,44 milljarða eða 100%

Útlán Sparisjóðsins ásamt kröfum námu 62,3 milljörðu króna í lok ársins 2007 og höfðu aukist um 31,2 millljarða eða um 100,3% samkvæmt því sem kemur fram í ársuppgjöri bankans.

Innlán frá viðskiptavinum sem hlutfall af útlánum var 62,4% í lok árs 2007 sem var 62,5% árið áður.

25% arður til stofneigenda

Aðalfundur Sparisjóðsins í Keflavík verður haldinn þriðjudaginn 11. mars n.k. Stjórn sjóðsins leggur til að greiddur verði 25,0% arður af endurmetnu stofnfé.

18 afgreiðslustaðir

Á síðasta ári var samþykktur samruni á Sparisjóðnum í Keflavík, Sparisjóði Vestfjarða og Sparisjóðs Húnaþings og Stranda.

„Markmiðið með sameiningunni er að efla starfsemi sparisjóðanna á starfssvæðum sínum og sækja fram á nýjum vettvangi. Með sameiningunni á sameinaður sparisjóður auðveldara með að mæta kröfum tímans um alhliða og hagkvæma fjármálaþjónustu við einstaklinga og fyrirtæki. Árið 2007 einkenndist af nokkuð af sameiningarvinnu m.a. með 4 stofnfjárútboðum. Nú fer í hönd tímabil samhæfingar og hagræðingar á þeim 18 afgreiðslum sem Sparisjóðurinn í Keflavík hefur á sinni könnu frá Reykjanesi vestur um firði og norður á Hvammstanga,” segir í tilkynningu frá Sparisjóðnum.

Þá hefur Sparisjóður Þórshafnar samþykkt samruna við Sparisjóðinn í Keflavík en eftir á að leggja það fyrir stofnfjáraðila Sparisjóðsins í Keflavík.