Rekstur Sparisjóðs Vestfirðinga gekk vel fyrstu sex mánuði ársins sem er umfram áætlanir. Sjóðurinn skilaði 145,2 milljóna kr. hagnaði á tímabilinu á móti 85 milljóna króna hagnaði árið á undan, en umtalsverð hækkun er á markaðsverðbréfum sjóðsins.

Stjórnendur sparisjóðsins gera ráð fyrir að afkoma fyrir árið 2006 í heild verði góð. Arðsemi eigin fjár á sama tíma var 31,1% en hún var 27,7% á árinu 2005. Vaxtatekjur á tímabilinu námu alls 474,5 milljónum kr. og hækkuðu um 23,8% frá sama tímabili árinu áður. Vaxtagjöld námu 346,5 milljónum kr. og hækkuðu þau um 54,5% frá fyrri árshelmingi 2005. Hreinar vaxtatekjur sparisjóðsins námu því 141,3 milljónum kr. en þær voru 159,1 milljónir kr. á sama tímabili á síðasta ári.

Aðrar rekstrartekjur voru 307,0 milljónir kr. og hækkuðu um 94,7 milljónir kr. frá fyrri árshelmingi ársins 2005. Hreinar rekstrartekjur námu 448,2 milljónum kr., en þær námu 371,4 milljónum kr. árið áður. Rekstrargjöld sparisjóðsins námu 199,5 milljónum kr. en námu 180,7 milljónum kr. á árinu 2005. Framlag í afskriftarreikning útlána nam 81,4 milljónum kr., en var 89,2 milljónir kr. á árinu 2005.

Útlán sparisjóðsins námu 6.613,0 milljónum kr. og aukast um 664,1 milljónir kr. frá árinu 2005 eða um 11,2 %. Markaðsverðbréf og eignarhlutir í félögum námu 1.627 milljónum kr. og hækka um 20,6%. Allar eignir sparisjóðsins í skráðum verðbréfum eru færðar á markaðsverði. Eigið fé Sparisjóðs Vestfirðinga í lok tímabilsins nam 1.141,4 milljónum kr. og víkjandi lán námu 444,8 milljónum kr. eða samtals 1.586,3 milljónum kr. Eiginfjárhlutfall samkvæmt CAD-reglum er 10,5% en það var 12,0 % um síðustu áramót.