Hagnaður norska olíurisans Statoil Hydro nam á þriðja ársfjórðungi um 6,3 milljörðum norskra króna (tæpir 120 milljarðar ísl.króna) samanborið við hagnað upp á 14,6 milljarða norskra króna á sama tíma í fyrra.

Hagnaður félagsins dregst því saman um tæp 57% milli ára.

Þetta kemur fram í uppgjörstilkynningu frá félaginu.

Statoil selur olíu og gas í Bandaríkjadölum en vegna hækkunar dollarans hafa skattgreiðslur félagsins aukist verulega samkvæmt tilkynningunni.

Ef skattgreiðslur félagsins eru aðskildar dregst hagnaður þess einungis saman um 12%.

Tekjur félagsins hækkuðu á tímabilinu um 35% og námu tæpum 175 milljónum norskra króna.