Norska olíufyrirtækið Statoil greindi frá því í gær að hagnaður félagsins hefði aukist um 12% á öðrum ársfjórðungi. Aukin eftirspurn eftir gasi og lægri skattgreiðslur náðu að vega upp á móti lægra olíu- og gasverði á heimsmarkaði. Samtals nam hagnaður olíufélagsins 10,72 milljörðum norskra króna, samanborið við 9,56 milljarða norskra króna á sama tíma fyrir ári. Afkoman var töluvert yfir væntingum greiningaraðila sem höfðu að meðaltali spáð hagnaði upp á 9 milljarða norskra króna. Þetta mun vera síðasta uppgjör félagsins áður en Statoil sameinast Norsk Hydro þann 1. október næstkomandi.