Hagnaður af rekstri Íbúðalánasjóðs á síðasta ári nam 1.154 milljónum króna en hagnaður á árinu 2004 nam 1.116 milljónum króna. Hreinar vaxtatekjur námu 1.495 milljónum kr. samanborið við 1.856 milljónir. kr. Á árinu 2004, sem skýrist annars vegar af uppgreiðslu lána og lækkun útlána.

Framlag í afskriftareikning útlána lækkar um 361 milljónum kr. úr 755 milljónum kr. á árinu 2004 í 394 milljónir kr. sem skýrist af lægri heildarútlánum, minni vanskilum og hækkun á verði fasteigna, en öll lán sjóðsins eru tryggð með veði í fasteignum.

Árið 2005 var sjöunda starfsár Íbúðalánasjóðs.

Eigið fé sjóðsins í árlok nam 13,894 milljónum kr. eða 2,8% af heildareignum sjóðsins. Eiginfjárhlutfall sjóðsins sem reiknað er samkvæmt ákvæðum í reglugerð nr. 544/2004 um Íbúðarlánasjóð er 6,0%. Hlutfallið er reiknað með sama hætti og eiginfjárhlutfall fjármálafyrirtækja. Langtímamarkmið sjóðsins er að hlutfallið sé yfir 5,0%.

Í árslok námu útlán 376.956 milljónum kr. og lækkuðu um 54.207 milljónir kr. á árinu. Kröfur á lánastofnanir og markaðsverðbréf jukust um 51.278 milljónir kr. á árinu. Lántaka sjóðsins nam 480.384 milljónir kr. og lækkaði um 4.500 millj. kr. á árinu.

Afgreiddum umsóknum fækkar

Afgreiddum umsóknum um almenn íbúðalán fækkaði um 27% frá fyrra ári og voru tæplega 8 þúsund á árinu. Heildarfjárhæð almennra íbúðalána jókst hins vegar úr 54.617 millj. kr. í 67.900 millj. kr., eða um 24,3%, sem skýrist annars vegar af hækkun á hámarksláni sjóðsins og hins vegar af því að meðal lánsfjárhæð er hærri á árinu 2005 en 2004. Önnur lán drógust hins vegar saman á árinu, en alls námu útlán sjóðsins 73.700 millj. kr. samanborið við 69.240 millj. kr. á árinu 2004.

Vanskil viðskiptavina sjóðsins halda áfram að lækka. Heildarvanskil í árslok 2005 námu 685 millj. kr. en þau voru 1.061 millj. kr. í árslok 2004, en þá hefur verið tekið tillit til sérgreindra afskrifta vegna útlána. Vanskil sem hlutfall að heildarútlánum námu þannig 0,2% í árslok 2005.

Uppgreiðslur lána á árinu 2005 námu 128.055 millj. kr. Sjóðurinn nýtti hluta af þessum uppgreiðslum til nýrra lánveitinga, þá nýtti hann sér heimildir til aukaútdráttar húsbréfa og uppgreiðslu óhagstæðra lána. Auk þess gerði hann bæði skammtíma- og langtímasamninga við innlendar lánastofnanir um ávöxtun á fjármunum sínum til að jafna greiðsluflæði og meðallíftíma milli eigna og skulda sjóðsins. Þá hefur sjóðurinn í samræmi við áhættu- og fjárstýringarstefnu sína gert afleiðusamninga til að draga úr vaxtaáhættu sinni vegna uppgreiðslu lána.