Hagnaður af rekstri fasteignafélagsins Stoða hf. nam alls 2.705 milljónum króna á liðnu ári en árið áður var hagnaður að fjárhæð 55 millj. kr.

Samkvæmt efnahagsreikningi námu heildareignir félagsins 45.450 millj. kr. í árslok 2004 en námu 35.083 millj. kr. í árslok 2003. Eigið fé félagsins í árslok 2004 nam 9.188 millj. kr. en þar af nam hlutafé 2.151 millj. kr.

Fasteignir félagsins eru verslunarhúsnæði, skrifstofur, hótel og vörugeymslur. Fjöldi leigutaka er á annað hundrað. Meðal stærstu leigutaka má nefna Haga, Flugleiðahótel og Fasteignir Ríkissjóðs. Nýtingarhlutfall fasteigna er yfir 97%. Fasteignir í eigu félagsins eru samtals um 230 þús. fm.

Ársreikningur félagsins er nú í fyrsta sinn gerður í samræmi við alþjóðlega reikningsskilastaðla (IFRS). Fasteignir félagsins flokkast nú sem fjárfestingaeignir og eru þær metnar á gangverði í samræmi við alþjóðlegan reikningsskilastaðal nr. 40. Við mat á fjárfestingaeignum er stuðst við núvirt áætlað framtíðar sjóðsflæði einstakra eigna. Matið var gert í fyrsta sinn miðað við 1. janúar 2004 og samkvæmt niðurstöðum þess er gangverð eignanna 2.648 millj. kr. hærra en upphaflegt kostnaðarverð þeirra. Hækkunin að frádreginni tekjuskattskuldbindingu er færð á óráðstafað eigið fé 1. janúar 2004.