Hagnaður Straums Burðaráss fjárfestingabanka eftir skatta á öðrum ársfjórðungi árið 2006 er 307 milljónir króna en var 3.052 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi árið 2005 og er það 90% lækkun. Hagnaður eftir skatta á fyrri helmingi ársins 2006 var 19.387 milljónir kr. en var 7.630 milljónir kr. á fyrri helmingi ársins 2005 og er það 154% hækkun.

Í uppgjöri félagsins kemur fram að hreinar rekstrartekjur á öðrum fjórðungi lækkuðu um 69,6% á milli ára og námu 1.203 m.kr., en voru 3.962 m.kr. á sama tímabili árið 2005. Á fyrri helmingi ársins 2006 námu hreinar rekstartekjur 25.416 m.kr. en sama tíma árið 2005 námu þær 9.498 m.kr., sem er 168% hækkun.

Arðsemi eigin fjár var 17,8% á fyrri helmingi ársins sem jafngildir 38,8% arðsemi eigin fjár á ársgrundvelli. Arðsemi eigin fjár árið 2005 var 46,5%.

Hlutfall rekstrarkostnaðar af tekjum nam 5,9% á fyrri helmingi ársins 2006 en var 3,9% á árinu 2005.

Umtalsverð aukning vaxta- og þóknunartekna

Hreinar þóknunartekjur tæplega fimmfaldast milli ára og námu 3.469 milljónum króna á fyrri helmingi ársins samanborið við 617 milljónir kr. á sama tímabili 2005.

Hreinar vaxtatekjur bankans voru 1.878 m.kr. á fyrri helmingi ársins, en voru 302 m.kr. á sama tímabili 2005. Á fyrstu sex mánuðum ársins eru vaxtatekjur því rúmlega 5 sinnum hærri en á sama timabili 2005.

Heildareignir bankans námu 340.884 m.kr. í lok annars ársfjórðungs en voru 259.349 m.kr. í lok árs 2005 og hafa því vaxið um 31% frá áramótum.

Eiginfjárhlutfall á CAD grunni var 31,7%, þar af A-hluti 30,2%. Til samanburðar var CAD hlutfall um áramót 19,8%, þar af var A-hluti 15,3%.

Eigið fé nam 128.405 m.kr. í lok annars fjórðungs.

Lánasafnið rúmlega tvöfaldaðist að stærð úr 48.911 m.kr. í upphafi árs í 108.191 m.kr. í lok annars ársfjórðungs.

Friðrik Jóhannsson, forstjóri segir í tilkynningu félagsins: ?Það er ánægjulegt fyrir stjórnendur Straums-Burðaráss að bankinn skili hagnaði á öðrum ársfjórðungi þrátt fyrir skarpa lækkun á helstu mörkuðum. Þetta er staðfesting á þeirri stefnu bankans að leggja kapp á að efla tekjustofna umfram gengishagnað hlutabréfa. Vaxta- og þóknunaratekjur eru rúmir 5,3 milljarðar á fyrstu sex mánuðum ársins, sem er tæplega fjórfaldur rekstrarkostnaður bankans á tímabilinu. Hagnaður á fyrstu sex mánuðum ársins er methagnaður í rekstrarsögu Straums-Burðaráss."