Straumur hagnaðist um 22,3 milljónir evra eftir skatta á fyrsta fjórðungi þessa árs, en meðalspá greiningardeilda gerði ráð fyrir að niðurstaða rekstrarreiknings væri á núlli.

Á sama tíma í fyrra nam hagnaður bankans 69,2 milljónum evra. Á fjórða ársfjórðungi síðasta árs nam tap félagsins 0,6 milljónum evra.

Rekstrartekjur námu 66,2 milljónum evra, samanborið við 92,5 milljónir á fyrsta ársfjórðungi 2007. Tekjur af þjónustu við viðskiptamenn námu 53,9 milljónum evra eða 81,4% af rekstrartekjum tímabilsins.

Hreinar vaxtatekjur námu 23,2 milljónum evra, sem samsvarar 35% af rekstrartekjum, miðað við 11,2 milljónir evra á sama tímabili 2007. Voru þær nær óbreyttar frá fjórða ársfjórðungi 2007 er þær námu 23 milljónum evra.

Hreinar þóknunartekjur námu 30,8 milljónum evra, sem samsvarar 46,4% af rekstrartekjum, en voru 30,3 milljónir á fyrsta ársfjórðungi 2007.

Rekstrarkostnaður nam 35,1 milljón evra, samanborið við 12,3 á fyrsta ársfjórðungi 2007.

Kostnaðarhlutfall tímabilsins var 53,0%. Hagnaður á hlut nam 0,002 evrum. Arðsemi eigin fjár var 5,9%.

Heildareignir í lok ársfjórðungsins námu 8,0 milljörðum evra, samanborið við 7,1 milljarð í árslok 2007. Eignir í stýringu námu 1,5 milljörðum evra í lok ársfjórðungsins. Eiginfjárhlutfall (CAD) var 21,4% í lok tímabilsins. Eiginfjárþáttur A var 19,6%.