Gengi hlutabréfa í Tesco hækkaði um 4,5% eftir að smásölufyrirtækið greindi frá afkomu sinni á fyrstu sex mánuðum fjárhagsársins sem lauk 25. ágúst síðastliðinn. Afkoman var yfir væntingum greiningaraðila og jókst undirliggjandi hagnaður um 14% frá því á sama tíma í fyrra. Samtals nam hagnaður félagsins 1,32 milljörðum punda, samanborið við 1,15 milljarða punda hagnað í fyrra.

Markaðsaðilar höfðu að meðaltali spáð hagnaði upp á 1,28 milljarða punda. Tesco, sem er stærsta smásölufyrirtæki Bretlands og hið þriðja stærsta í Evrópu, sagði að góðri afkomu félagsins mætti þakka sterkri stöðu á breskum markaði og vaxandi starfsemi á erlendum mörkuðum.

Á seinni hluta fjárhagsársins gerir félagið ráð fyrir að hefja starfsemi í Bandaríkjunum.