Hagnaður Tesco fyrir skatta nam 908 milljónum punda samkvæmt hálfsársuppgjöri sem félagið birti í morgun. Afkoman er betri en meðaltalsspá greinenda (886 m.GBP) gerði ráð fyrir. Sala félagsins nam 18,8 mö.GBP og jókst um 14,1% samanborið við sama tímabil fyrra árs. Um 80% af tekjum Tesco kom frá sölu í Bretlandi en 20% frá sölu utan Bretlands, mest í A-Evrópu og Asíu. Sem kunnugt er þá er Tesco stærsti viðskiptavinur Bakkavarar.

Vöxturinn í sölu til landa utan Bretlands nam 17% á tímabilinu en vöxturinn í Bretlandi nam 8,2%. Sala í verslunum Tesco hefur þannig haldist mikil þrátt fyrir að hægt hafi á einkaneyslu í Bretlandi. Ástæðan er að hluta til sú að sala á öðrum vörum en matvöru (t.d. raftækjum, fötum og snyrtivörum) hefur vaxið mjög hratt undanfarið.

Í Morgunkorni Íslandsbanka er bent á að Tesco áformar að fjölga verslunum í Bretlandi og utan Bretlands enn frekar á seinni hluta ársins. Staða Tesco er mjög sterk en markaðshlutdeild Tesco á meðal stórmarkaða í Bretlandi er nú 30,5% en var 28,1% fyrir ári síðan. Næst kemur Asda (í eigu Wal-Mart) með 16,7%.

Byggt á Morgunkorni Íslandsbanka.