Hagnaður Teymis á árinu 2007 nam 1.354 milljónum króna. Innri vöxtur félagsins var 15,4% miðað við fyrra ár (pro-forma) og voru tekjurnar um 21,5 milljarðar króna. Hagnaður fyrir afskriftir (EBITDA) nam 4.009 milljónum króna, veltufjárhlutfall Teymis í árslok var 1,25 og eiginfjárhlutfall 22,1%. Handbært fé frá rekstri nam 3.258 milljónum króna.

Í tilkynningu frá Teymi segir að fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 76 milljónum á árinu. Þar af nam gengishagnaður af langtímaskuldum 930 m.kr. Hlutdeild í tapi og niðurfærsla vegna hlutdeildarfélagsins Hands Holding nam 1.095 m.kr.

Helstu niðurstöður fjórða ársfjórðungs 2007

Tekjur Teymis samstæðunnar á 4. ársfjórðungi 2007 námu 6.249 milljónum kr. sem var 16% innri vöxtur frá sama tímabili árið áður (pro-forma). Hagnaður fyrir afskriftir, vexti og skatta (EBITDA) nam 1.063 m.kr. á tímabilinu og var 24,7% hærri en á sama tímabili árið áður (pro-forma). Fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur námu 1.098 m.kr. Þar af nam gengistap langtímaskulda 752 m.kr. Hagnaður tímabilsins eftir reiknaðan tekjuskatt var -221 milljón kr. Handbært fé frá rekstri Teymis nam 1.198 m.kr. á 4. ársfjórðungi.

Árni Pétur Jónsson, forstjóri Teymis, segir í tilkynningunni að árangurinn á árinu 2007 umfram væntingar á fyrsta heila rekstrarári félagsins. Flest félög innan samsteypunnar hafi sýnt bestu afkomu sína frá upphafi og sjóðstreymið hafi verið mjög sterkt. “Við einsettum okkur að skila góðum rekstrarárangri og gera félagið að eftirsóknarverðum fjárfestingarkosti. Það markmið náðist því Teymis fyrirtækin uxu hraðar en markaðirnir sem þau störfuðu á og verðmæti Teymis jókst umtalsvert á árinu, þrátt fyrir miklar hræringar á fjármálamarkaði seinni hluta ársins.”

Horfur í rekstri Teymis eru góðar á þessu ári. Mikilvægir samningar hafa verið gerðir í fjarskiptahluta félagsins að undanförnu og verkefnastaða í upplýsingatæknihlutanum er góð.