Hagnaður Ticket Travel, sem eignarhaldsfélagið Fons á 28% hlut í, nam 134 milljónum íslenskra króna á fyrsta ársfjórðungi, borið saman við 62 milljónir á sama tíma 2005. Í tilkynningu frá félaginu segir að aukinn hagnað megi þakka vaxandi eftirspurn eftir sumarleyfisferðum.

Tekjur Ticket á fjórðungnum námu 962,4 milljónum sænskra króna, eða 9.833 milljónum íslenskra, og jukust um 11% frá fyrra ári. Rekstrarhagnaður meira en tvöfaldaðist og nam 17 milljónum sænskra króna, eða 174 milljónum íslenskra, miðað við 8,3 milljónir sænskra króna, 84,8 milljónir íslenskra, í fyrra.

Í tilkynningu frá félaginu segir að það hyggist kanna vaxtarmöguleika á nýjum mörkuðum og einnig nýja markhópa meðal viðskiptavina. Horfur fyrir árið 2006 eru góðar, segir í tilkynningunni, en takmark fyrirtækisins er að framlegð nemi að meðaltali 7% á ári næstu þrjú árin.

Ticket býst ekki við því að náttúruhamfarir eins og flóðbylgjan í Suðaustur-Asíu, eða hryðjuverk á borð við þau sem framin hafa verið síðastliðið ár, muni hafa langtímaáhrif á rekstur félagisins. Þá býst það ekki við því að útbreiðsla fuglaflensu í Svíþjóð og annars staðar í Evrópu hafi áhrif á heildartíðni ferðalaga.

Hins vegar, segir í tilkynningunni, má búast við því að góð sala á sumarferðum í ár, borið saman við síðasta ár, þýði að færri ferðir verði eftir til að selja í öðrum ársfjórðungi en á sama tíma 2005.