Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar (TM) af reglulegri starfsemi á fyrri helmingi ársins 2010 var 319 milljónir króna. Á sama tímabili í fyrra voru tekjur félagsins 491 milljónir króna. Er það samdráttur um 35%. Árshlutauppgjör TM var birt í dag.

Fjárfestingartekjur TM voru jákvæðar um 1.057 milljónir króna á fyrri helmingi ársins. Þær voru 2.194 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Eigin iðgjöld félagsins jukust um 11% miðað við fyrri helming ársins 2009 og voru 5.032 milljónir króna.

Rekstrarkostnaður lækkaði um 5% og var 3.996 milljónir króna. Þá lækkaði eigið tjónshlutfall félagsins úr 92% í 79% á milli ára.

Heildareignir TM voru 31.613 milljónir króna í lok júní en voru 30.699 milljónir króna á sama tíma í fyrra. Eigið fé TM nam 8.357 milljónum króna og var eiginfjárhlutfall 26% í júnílok.

Í tilkynningu frá félaginu segir Sigurður Viðarsson, forstjóri TM, að samdráttur í hagnaði skýrist fyrst og fremst af lækkun fjárfestingatekna. „Hagnaður félagsins af reglulegri starfsemi á fyrstu 6 mánuðum ársins dregst saman um 35% milli ára og skýrist það fyrst og fremst af lækkun fjárfestingatekna. Mikilvægum áfanga var náð á fyrri hluta ársins í vátryggingarekstrinum þar sem samsett hlutfall fer nú í fyrsta skipti í langan tíma undir 100%.

Bæði tjóns- og kostnaðarhlutfall lækka milli ára og rekstrarkostnaður félagsins lækkar nú í krónum talið, þriðja árið í röð. Ánægjulegt er að afkoma flestra vátryggingagreina er nú á áætlun. Endurskoðun verðlagningar og áhættumats í slysa- og ábyrgðartryggingum er þó ekki lokið. Draga má nokkurn lærdóm af mikilli fjölgun ábyrgðartjóna í kjölfar efnahagshrunsins.

Styrkur TM kemur skýrt fram í efnahagsreikningi félagsins sem sýnir hátt hlutfall peningalegra eigna, ríkisskuldabréfa og annarra auðseljanlegra eigna. Félagið er því vel í stakk búið til þess að takast á við framtíðina.“