Hagnaður Tryggingarmiðstöðvarinnar (TM) eftir skatta dróst saman um meira um helming á fyrsta ársfjórðungi ársins 2006, segir í tilkynningu til Kauphallar Íslands.

Óskar Magnússon forstjóri segir að þótt dregið hafi úr hagnaði TM megi sjá jákvæða þætti í uppgjörinu, en hagnaður félagsins lækkaði í 626 milljónir króna úr 1,43 milljörðum á sama tíma í fyrra. Hagnaður á hlut nam 0,69 kr. samanborið við 1,56 krónur á sama tímabili í fyrra.

Óskar segir afkomu af fjárfestingarstarfseminni jákvæða, sérstaklega sé afkoma af fjárfestingum félagsins í Svíðþjóð og Noregi góð. Félagið á nú í yfirtökuviðræðum við norska tryggingarfélagið NEMI og hefur tryggt sér tæp 75% í félaginu. Heildarkaupverðið er rúmlega 10 milljarðar króna.

Óskar segir að á undanförnum misserum hafi verið gerðar allnokkrar breytingar á eignasafni félagsins í því skyni að dreifa frekar áhættu og skilar það sér meðal annars nú þegar sveiflur eru á gengi skráðra félaga í Kauphöll Íslands. Hlutdeild í neikvæðri afkomu ISP ehf. dregur hins vegar úr hagnaði félagsins.

Rekstrartap af vátryggingastarfsemi á tímabilinu nam 215 milljónum króna og segir TM það skýrast fyrst og fremst af tapi á rekstri ökutækjatrygginga.

?Afkoma af vátryggingastarfsemi er ekki viðunandi. Skýrist það af auknum tjónaþunga og af harðri samkeppni á vátryggingamarkaði. Því er ljóst að taka þarf iðgjaldaskrá félagsins til endurskoðunar þar sem iðgjöld rísa ekki undir tjónum," segir Óskar.

Bókfærð iðgjöld hækka um 9,8% frá sama tíma í fyrra og námu rúmlega fjórum milljörðum samanborið við 3,7 milljarða á sama tíma í fyrra. Eigin iðgjöld hækka um 12,4% frá sama tíma í fyrra og nema nú 1,38 milljörðum.

?Þrátt fyrir að bókfærð iðgjöld hækki um hátt í 10% fjölgar útgefnum vátryggingaskírteinum öllu meira. Þessi þróun er skýr vísbending þess að iðgjöld félagsins fari lækkandi," segir í tilkynningu TM.

Fjárfestingatekjur TM námu 1.,7 milljörðum á tímabilinu samanborið við 1,77 milljarða á sama tíma í fyrra. Tap af rekstri hlutdeildarfélaga nam 414 m.kr. en á sama tíma í fyrra var 482 m.kr. hagnaður af hlutdeildarfélögum. Tapið skýrist fyrst og fremst af afkomu ISP ehf.

Eigin tjónakostnaður nam 1,52 milljarðaog hækkar um 18% frá í fyrra. Rekstrarkostnaður TM var 421 milljónir króna á tímabilinu samanborið við 472 milljónir á sama tíma í fyrra. Heildareignir TM jukust úr 30,78 milljörðum í árslok 2005 í 34.9 milljarða þann 31. mars 2006, eða um 13,3%.