Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar á þriðja ársfjórðungi 2006 nam 1.088 milljónum króna samanborið við 2.554 milljóna króna hagnað á sama tímabili fyrir ári. Hagnaður fyrstu níu mánuði ársins nemur 464 milljónum króna en hagnaður á sama tímabili í fyrra var 5.434 milljónir króna.

Rekstrartap af vátryggingastarfsemi fyrstu níu mánuði ársins nam 175 milljónum króna. Skýrist það fyrst og fremst af tapi á rekstri frjálsra ökutækjatrygginga, slysa- og sjúkratrygginga. Afkoma af vátryggingarekstri fer batnandi og er hagnaður af vátryggingarekstri í ársfjórðungnum, segir í tilkynningu.

Hreinar tekjur félagsins námu 3.860 milljónum króna í júlí til september samanborið við 3.763 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Fjárfestingatekjur félagsins námu 2.126 milljónum króna á þriðja ársfjórðungi en voru 2.497 milljónum króna á sama tíma í fyrra.

Eigin iðgjöld félagsins hækkuðu um tæp 37% á sama tíma og námu 1.734 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi.
Eigin tjónakostnaður félagsins hækkaði frá þriðja ársfjórðungi 2005 þegar hann nam 1.056 milljónir króna en er nú 1.510 milljónir króna.

Rekstrarkostnaður Tryggingamiðstöðvarinnar var 474 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi 2006 og hækkar um 22% frá árinu áður þegar hann nam 390 milljónum króna. Einskiptiskostnaður að fjárhæð 100 milljónum króna var gjaldfærður hjá samstæðunni á tímabilinu.

Hlutdeild í afkomu hlutdeildarfélaga var neikvæð um 125 milljónir króna á þriðja ársfjórðungi en var jákvæð um 796 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Heildareignir TM jukust úr 30.777 milljónum króna þann 31. desember 2005 í 63.657 milljónir króna þann 30. september 2006 eða um 107%.

Umtalsverður innri vöxtur

“Umtalsverður innri vöxtur hefur einkennt starfsemi TM fyrstu níu mánuði ársins. Með tilkomu Nemi eru stigin skref í ytri vexti félagsins. Bókfærð iðgjöld Nemi á síðasta ári námu 7,8 milljörðum kr. sem er um 30% meira en bókfærð iðgjöld móðurfélagsins á sama tíma.

Með tilkomu Nemi er áhættu móðurfélagsins í vátryggingarekstri dreift enn frekar. Nemi er félag í góðum rekstri, t.a.m. er samsett hlutfall rekstrar- og tjónakostnaðar félagsins undir 90%. Markmið í vátryggingarekstri TM er að ná að lækka þetta hlutfall í rekstri móðurfélagsins.

Það verður gert með endurskoðun á iðgjaldaskrám, frekari lækkun rekstrarkostnaðar og umfram allt með aukinni samvinnu við viðskiptavini um lækkun tjónakostnaðar. Þess verður þó gætt að viðhalda góðri þjónustu TM og bjóða viðskiptavinum áfram upp á vátryggingaþjónustu í takt við þarfir hvers og eins,” segir Óskar Magnússon, forstjóri Tryggingamiðstöðvarinnar.