Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar á fyrstu fjórðungi ársfjórðungsins nam 886 milljónum en hagnaður á sama tíma í fyrra var 626 milljónir króna.

Bókfærð iðgjöld af vátryggingastarfsemi á Íslandi jukust um 18%.

Bókfærð iðgjöld ríflega tvöfölduðust og voru þau 8.675 milljónir króna samanborið við 4.082 milljónir króna á sama tíma í fyrra.

Rekstrartap af vátryggingastarfsemi var fimm milljónir króna, samanborið við 215 milljónir króna tap á
fyrsta ársfjórðungi 2006. Tap af innlendri vátryggingarstarfsemi var 113 milljónir á tímabilinu.

Fjárfestingatekjur félagsins námu 1.894 milljónum króna á tímabilinu en voru 1.711 milljónum króna árið áður.

Heildareignir Tryggingamiðstöðvarinnar voru 73.812 milljónir króna þann 31. mars 2007 og hafa því aukist um 6% frá áramótum.

Norska vátryggingarfélagið Nemi er hluti af samstæðu TM frá 1. september 2006 og hefur áhrif á samanburð rekstrar og efnahags TM á milli ára.

Um uppgjörið

Óskar Magnússon, forstjóri TM, segir áframhaldandi vöxt vátryggingastarfsemi einkenna starfsemi félagsins á Íslandi. Vöxtur bókfærðra iðgjalda á Íslandi nam 18% á tímabilinu og eigin iðgjöld jukust um 22%. Í Noregi stóðu bókfærð iðgjöld í stað en tæplega 10% vöxtur var í eigin iðgjöldum. Hagnaður Nemi nam 153 milljónir króna á ársfjórðungnum.

Tjónaþróun tveggja vátryggingagreina á Íslandi er enn áhyggjuefni. Tap er enn af slysatryggingum sjómanna og hafa þær ráðstafanir sem gripið var til á árinu
2006 ekki skilað sér að öllu leyti. Tjónaþróun í greininni er sérstakt áhyggjuefni. Frjálsar ökutækjatryggingar eru reknar með tapi en gripið var til
ráðstafana til að snúa þeirri þróun við undir lok ársins 2006. Vátryggingarekstur í Noregi var rekinn með 108 m.kr. hagnaði.

Markaðsaðstæður voru hagstæðar á ársfjórðungnum og voru fjárfestingartekjur samstæðunnar 1.894 m.kr. Áfram var unnið að því að dreifa eignasafni félagsins
og var fjárfest í nokkrum félögum í Skandinavíu á tímabilinu. Hinn 2. maí síðastliðinn fékk TM styrkleikamat BBB frá S&P sem voru mjög ánægjuleg tíðindi.

Matið opnar nýja markaði fyrir TM. Dótturfélag TM, Nemi, hefur haft einkunnina BBB frá S&P og hefur náð umtalsverðum árangri m.a. á alþjóðlegum sjótryggingamarkaði.


Rekstrarhorfur og framtíðarsýn

Vaxtarhorfur í rekstri TM eru áfram góðar. Styrkleikamat S&P mun jafnframt gera félaginu kleift að sækja fram á nýjum mörkuðum. Þeir markaðir og þær greinar eru með betri kostnaðarhlutföll en þekkjast á Íslandi. Matið frá S&P gerir nú TM og Nemi kleift að sækja nýjar vátryggingar saman. Á síðasta ári var markvisst unnið að því að bæta afkomu vátryggingarekstrar. Þær aðgerðir sem gripið var til skiluðu sér þegar að hluta á því ári. Rétt er þó að taka fram að tjónakostnaður er háður miklum sveiflum og getur haft afgerandi áhrif á afkomu vátryggingastarfseminnar.