Hagnaður Tryggingamiðstöðvarinnar á fyrstu sex mánuðum ársins nam 1,3 milljarði króna samanborið við 333 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Hagnaðurinn fjórfaldaðist því milli ára. Meginskýringin á auknum hagnaði er óvenju mikill hagnaður af sölu fjárfestinga á tímabilinu, 1.468 milljónir króna samanborið við 71 milljón fyrir sama tímabil árið áður.

Hagnaður af vátryggingarekstri á tímabilinu var 803 milljónir króna sem er talsvert meira en áður hefur verið fyrir sambærilegt tímabil. Hann var til að mynda 291 milljón króna árið áður. Eigin iðgjöld tímabilsins eru 2.482 milljónum króna en voru 2.587 milljónir árið áður sem er lækkun um 4,1%. Lækkunin stafar að mestu af lækkun iðgjaldstaxta, einkum í ökutækjatryggingum. Tjónaþungi var eins og vænta mátti í flestum greinum, eigin tjón á móti eigin iðgjöldum eru 95% en voru 82% árið áður. Eitt stórtjón lenti á félaginu á tímabilinu þegar m/s Baldvin Þorsteinsson EA strandaði á Skarðsfjöru. Þetta tjón er áætlað 180 milljónir króna en af því er þegar búið að greiða 145 milljónir króna en eigin hlutur félagsins er 60 milljónir króna. Megin ástæðan fyrir þessum góða hagnaði af vátryggingarekstri er miklar reiknaðar fjárfestingartekjur sem má rekja til óvenju mikils söluhagnaðar af hlutabréfum í eigu félagsins. Stór hluti þess söluhagnaðar reiknast sem tekjur í vátryggingarekstrinum.