Hagnaður VBS fjárfestingarbanka nam 1,4 milljörðum króna í fyrra og meira en sexfaldaðist frá fyrra ári þegar hann nam 217 milljónum króna. Aðrar stærðir hafa einnig vaxið hratt. Hreinar vaxtatekjur meira en þrefölduðust og námu tæpum 1 milljarði króna í fyrra. Hreinar rekstrartekjur meira en þrefölduðust og námu 2,8 milljörðum króna.

Rekstrargjöld jukust minna, um rúm 160%, og námu 841 milljón króna. Kostnaðarhlutfallið var rúm 30%.

Tvöföldun efnahagsreiknings

Efnahagur bankans ríflega tvöfaldaðist og nam 35 milljörðum króna um áramót. Eigið fé nam 8,3 milljörðum króna og eiginfjárhlutfall á CAD-grunni var 22,3%, sem er aukning úr 20,8% frá fyrra ári. Arðsemi eigin fjár var 21,9%.

Sameining við Fjárfestingarfélag Sparisjóðanna

Í fréttatilkynningu er haft eftir Jóni Þórissyni forstjóra bankans að árið 2007 hafi verið ár breytinga í rekstri bankans. „Sameining við Fjárfestingarfélag Sparisjóðanna auðveldaði vöxt og  fjölbreytni í rekstri bankans. Fjöldi hæfileikaríks fólks bættist í hóp starfsmanna og ný starfssvið  voru sett á fót. Þá voru innviðir styrktir til muna og innra erftirlit hert. Samhliða öflugu uppbyggingarstarfi náðist frábær árangur í rekstri,“ segir Jón. Hann segir ennfremur að tekjumyndum verði stöðugt fjölbreyttari og uppruni hennar frá fleiri starfssviðum. Lánasafnið sé traust og dreifing þess hafi aukist mikið. „Megin hluti þess er til innlendra aðila og hefur vægi lána til nýbygginga dregist stórlega saman á árinu,“ segir hann.

Í tilkynningu bankans kemur fram að í undirbúningi sé að hefja starfsemi á fleiri sviðum fjármálaþjónustu og að lagt verði til við aðalfund að sótt verði um viðskiptabankaleyfi til Fjármálaeftirlitsins.