Í ársuppgjöri Vinnslustöðvarinnar er greint frá því að hagnaður árins 2005 var 442 milljónir króna samanborið við 814 milljónir árið 2004 og hefur því dregist saman um 372 milljónir króna.

Heildartekjur félagsins voru 4.407 milljónir króna og jukust um 402 milljónir frá fyrra ári. Tekjuaukningin kemur í kjölfar aukinna viðskiptaumsvifa sem voru fyrst og fremst í kaupum og sölu á mjöli og lýsi.

Eigið fé lækkaði um 233 milljónir króna á árinu og er nú 2.276 milljónir og lækkuðu vegna útgreiðslu arðs að fjárhæð 449 milljónir og kaupa á eigin bréfum upp á 227 milljónir.

Stjórnendur Vinnslustöðvarinnar hafa lagt drög að rekstraráætlun yfirstandandi árs en þar sem ennþá ríkir óvissa um marga þætti munu þeir ekki gefa hana út að svo stöddu. Að óbreyttum forsendum um gengi krónunnar, afurðaverð og kostnað félagsins er þó ljóst að hagnaður mun dragast saman á árinu.