Vinnslustöðin hf. hagnaðist um 335 milljónir króna á síðasta ári og dróst hagnaður saman um 107 milljónir milli ára en hagnaður ársins 2005 var 442 milljónir króna samkvæmt tilkynningu Vinnslustöðvarinnar til Kauphallarinnar.  Heildartekjur Vinnslustöðvarinnar  á síðasta ári voru 5,8 milljarðar króna og jukust um tæplega 1,4 milljarð milli ára. Tekjur fiskvinnslu jukust um 47,1% en tekjur útgerðar jukust um 25,5%. Rekstrargjöld jukust um 13,7%.

Hagnaður Vinnslustöðvarinnar á fjórða ársfjórðungi síðasta árs var 248 milljónir króna en á sama tímabili voru  tekjur félagsins 1,3 milljarður króna. Rekstrargjöld Vinnslustöðvarinnar á fjórða ársfjórðungi námu 720 milljónum króna. Framlegð tímabilsins var því 598 milljónir króna en 248 milljón króna hagnaður varð af rekstri fjórðungsins. Tap var á rekstri félagsins á sama tímabili í fyrra að fjárhæð 38 milljónir króna. Hlutdeild félagsins í hagnaði hlutdeildarfélagsins Hugins ehf. nam um 32 milljónum króna á fjórðungnum.


Framlegð vinnslustöðvarinnar á síðasta ári  (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam 1,7 milljarði króna sem samsvarar til 30,6% af tekjum og jókst um 910 milljónir króna frá fyrra ári en þá var framlegðarhlutfall 19,7%. Veltufé frá rekstri á ársgrundvelli nam 1,5 milljarði króna á árinu og var 26,7% af rekstrartekjum. Veltufé frá rekstri jókst um 89% frá fyrra ári. Afskriftir Vinnslustöðvarinnar lækkuðu um 16 milljónir króna frá fyrra ári og námu 344 milljónum króna.

Niðurstaða fjármagnsliða var neikvæð á árinu  um 889 milljónir króna. Gengistap nam 796 milljónum króna en á síðasta rekstrarári var 280 milljón króna gengishagnaður.

Heildarskuldir og skuldbindingar Vinnslustöðvarinnar hf. hækkuðu um 676 milljónir króna frá upphafi árs til ársloka og eru 6,7 milljarðar króna. Nettóskuldir eru 4,4 milljarðar króna en þær voru 4,7 milljarðar  í lok síðasta árs og lækkuðu því um 264 milljónir króna. Eigið fé lækkaði frá áramótum um 80 milljónir króna. .


Í árslok var gengið var frá kaupum á 49% hlut félagsins About Fish ehf. og af þeim ástæðum er ekki tekin hlutdeild í afkomu þess. Rekstur félagsins gekk ágætlega, heildartekjur voru tæpar 1.100 milljónir króna og nam hagnaður eftir skatta tæpum 9 milljónum króna á árinu.

Í tilkynningu segir að rekstur Vinnslustöðvarinnar hafi gengið vel á haustmánuðum. "Munar þar mestu um að stutt var að sækja síldarafla félagsins og var verulegur hluti aflans unninn til bræðslu sökum erfiðra stöðu á mörkuðum fyrir síldarafurðir til manneldis," segir í tilkynningu.


Stjórnendur Vinnslustöðvarinnar telja að rekstrarhorfur á yfirstandandi rekstrarári séu góðar og að óbreyttuer talið líklegt að tekjur og afkoma verði með svipuðum hætti og á síðasta ári ef gengissveiflur krónunnar eru undanskildar. "Afurðaverð er í flestum tilvikum hátt og ber þar sérstaklega að nefna mjöl og lýsi þar sem afurðaverð er í sögulegu hámarki. Sveiflur á afurðaverði eru vel þekktar innan sjávarútvegsins og því vafasamt að gera ráð fyrir mjög háu afurðaverði til lengri tíma. Þá er mikill þrýstingur til hækkunar ýmissa kostnaðarliða félagsins. Af þeim sökum er vart hægt að gera ráð fyrir öðru en að framlegð lækki á árinu.," segir í tilkynningu.