Hagnaður Vinnslustöðvarinnar fyrstu 9 mánuði ársins nam 480 milljónum króna og lækkaði um rúm 9% frá sama tímabili í fyrra þegar hann var 530 milljónir króna. Heildartekjur félagsins voru 3.567 milljónir króna og jukust um tæp 12% frá sama tímabili í fyrra. Tekjur fiskvinnslu lækkuðu um 8% en tekjur útgerðar jukust um tæp 6%. Rekstrargjöld hækkuðu um 553 milljónir króna frá sama tímabili í fyrra, eða úr 2.307 í 2.860 milljónir króna.

Rekstrargjöld fiskvinnslu lækkuðu lítillega frá sama tímabili í fyrra en rekstrargjöld útgerðar hækkuðu um tæp 11%. Eins og nefnt hefur verið í fyrri tilkynningum á árinu má að mestu rekja auknar rekstrartekjur og gjöld til endursölu félagsins á mjöli og lýsi sem ekki var hafin á fyrri helmingi síðastliðins rekstrarárs.

Framlegð félagsins (hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði) nam tæpum 707 milljónum króna og dróst saman um tæp 20% frá fyrra ári. Framlegðar hlutfall lækkaði úr 27,6% í fyrra í 19,8% í ár.

Veltufé frá rekstri nam 708 milljónum króna og var 19,8% af rekstrartekjum. Lækkun veltufjár frá rekstri nam rúmum 2% frá fyrra ári, sem þá var 725 milljónir króna. Fjárfestingarhreyfingar nettó námu 985 milljónum króna. Vinnslustöðin hf. keypti á tímabilinu 48% eignarhlut í Huginn ehf. sem gerir út uppsjávar­frystiskipið Huginn VE. Félagið festi einnig kaup á uppsjávarveiðiskipinu Gullbergi VE-292 af Ufsabergi ehf. ásamt öllum uppsjávarveiðiheimildum þess en seldi til félagsins bolfiskveiðiheimildir. Brynjólfur ÁR-3 var seldur á tímabilinu og nýtt skip var keypt í hans stað, Brynjólfur VE-3.

Afskriftir lækkuðu um 22 milljónir króna frá fyrra ári. Niðurstaða fjármagnsliða er jákvæð um tæpar 118 milljónir króna en var neikvæð um 52 milljónir króna á sama tímabili í fyrra.

Tekjur af eignarhlutum í hlutdeildarfélögum, þ.e. í Huginn ehf., eru 30 milljónir króna.

Reiknaðir skattar tímabilsins nema 99 milljónum króna en voru engir á sama tímabili í fyrra.