Hagnaður Virðingar hf. nam rúmlega 48,1 milljón króna á fyrri helmingi árs. Á sama tímabili í fyrra nam tap félagsins tæplega 21 milljón króna.

Að teknu tilliti til skatta nemur hagnaður Virðingar á fyrri helmingi árs um 39,2 milljónum króna, að því er kemur fram í tilkynningu frá félaginu.

Friðjón R. Sigursson, framkvæmdarstjóri félagsins, segir að rekstrarhorfur fyrir seinni hluta árs séu jákvæðar.

„Við erum búin að ná okkur uppúr því lægðardragi sem markaðurinn var í 2008 og 2009 og sjáum nú fram á hægt en stöðugt vaxandi gengi í starfseminni,“ segir Friðjón í tilkynningu.

Heildareignir Virðingar nema tæpum 419 milljónum króna og er eigið fé félagsins um 385 milljónir króna. Eiginfjárhlutfallið er 31,17% og hefur aukist um rúmlega 6% frá sama tímabili 2009.