Hagnaður bresku verslunarkeðjunnar Woolworhts dróst saman um 15% á milli ára, en félagið birti ársuppgjör sitt í dag.

Gengi bréfa félagsins tók strax að lækka við opnun markaðar í London og segja sérfræðingar ástæðuna áhyggjur af íslensku efnahagslífi. Gengið féll enn frekar í kjölfar uppgjörsins.

Baugur á 10% hlut í Woolworths og fyrirtækið hefur verið orðað við hugsanlega yfirtöku á fyrirtækinu og áhugi Baugs hefur haldið uppi hlutabréfaverðinu, segja fjármálasérfræðingar í Bretlandi.

Hins vegar benda sérfræðingarnir á að hugsanleg niðursveifla á Íslandi geti orðið til þess að það reynist erfitt fyrir Baug að fjármagna yfirtökur.

Lánshæfismatsfyrirtækið Standard & Poor's gaf Glitni lánshæfiseinkunina A-mínus í gær. Einunnargjöfin varð til þess að róa fjármálamarkaði, sem hafa verið næmir fyrir nýlegum neikvæðum greiningum erlendra banka.