Samanlagður hagnaður íslensku bankanna hefur hátt í 100 faldast á síðustu sex árum. Óhætt er að segja að engin íslensk fyrirtæki hafi gengið í gegnum þær breytingar sem bankarnir hafa gengið í gegnum síðan þeir voru einkavæddir um síðustu aldamót.

Rekstrarárangur þeirra á umræddu tímabili er einnig eftirtektarverður en samanlagður hagnaður þeirra hefur farið úr 2,5 milljörðum króna í 210 milljarða króna. Þess má geta að landsframleiðslan á árinu 2005 varð rúmlega 1.012 milljarðar króna.


Breytingin á milli einstakra banka er einnig töluverður þó óhætt sé að segja að allir hafi þeir notið mikillar velgengni. Þannig var hagnaður Landsbankans tvöfalt meiri en hagnaður Kaupþings árið 2001en á síðasta ári var hagnaður Kaupþings ríflega tvöfaldur hagnaður Landsbankans. Ef bornar eru saman breytingar á hagnaði Kaupþings og Glitnis er munurinn enn meiri. Þá er óhætt að segja að uppgjör Straums-Burðarás hafi verið mjög glæsileg síðustu tvö ár.

Það vekur einnig athygli að bönkunum hefur gengið mjög vel að auka hagnaðinn þó þeir séu orðnir mjög stórir. Það virðist ekki hafa komið mikið niður á arðsemi þeirra þó þeir hafi stækkað hratt en í nýrri skýrslu matsfyrirtækisins Standard & Poors var bent á að það muni fyrst reyna á íslensku bankana þegar hægist á íslenska hagkerfinu og framboði á lánsfé á alþjóðlegum fjármálamörkuðum.

Arðbærustu bankar Norðurlanda

Danska ráðgjafarfyrirtækið Bjarne Jensen greindi frá því í lok febrúar að íslensku bankarnir Kaupþing, Glitnir og Landsbankinn væru arðbærastir af þeim 34 bönkum sem fyrirtækið gerði úttekt á og eru með starfsemi á Norðurlöndunum. Þannig var Kaupþing með 43% arðsemi eigin fjár fyrir skatta, Glitnir 40% og Landsbankinn 37% hver um sig. Bjarne Jensen benti á að efnahagslegur vöxtur hafi leyft íslensku bönkunum að auka útlán sín í fasteignarlánum og fjárfestingarlánum, auk þess sem hagnaður af verðbréfaviðskiptum hafði aukist.

Samkvæmt heimildum Bankinfo var meðaltal á arðsemi eigin fjár 23% hjá þessum 34 bönkum sem úttekt var gerð á, og voru Svenska Enskildabanken og íslensku bankarnir þeir einu sem voru yfir því. Íslensku bankarnir fjórir hafa reynst hluthöfum sínum arðsöm fjárfesting og hefur markaðsvirði þeirra hækkað mikið undanfarin ár. Þeir munu greiða hluthöfum sínum tæplega 32 milljarð króna í arð vegna ársins 2006. Kaupþing banki greiðir hæstu upphæðina, eða 10,4 milljarða króna, en Straumur-Burðarás fjárfestingabanki hæsta hlutfallið.

En samhliða stækkun bankanna og aukinni fyrirferð hefur athyglin beinst meira að þeim. Þetta kom berlega í ljós fyrir ári síðan þegar heldur neikvæð umræða hófst um þá. Athyglin er þó ekki alltaf neikvæð og má sem dæmi taka að Kaupþing, Glitnir og Landsbanki Íslands eru á meðal 14 félaga sem komu ný inn í Dow Jones Stoxx 600 vísitöluna þann 19. mars síðastliðin. Engin önnur íslensk félög eru í vísitölunni. Dow Jones Stoxx 600 samanstendur af stórum, meðalstórum og litlum fyrirtækum í 18 löndum Evrópu og því mikilvægt fyrir bankana að vera komnir þar inn. Sömuleiðis hefur færst mjög í aukana að erlendar greiningadeildir fjalli um þá.