Hagnaður samstæðu Arion banka á öðrum ársfjórðungi 2018 nam 3,1 milljarði króna samanborið við 7,1 milljarð króna á sama tímabili 2017. Þetta kemur fram í uppgjöri bankans fyrir annan ársfjórðung þessa árs sem birt var nú fyrir skömmu.  Arðsemi eigin fjár var 5,9% á öðrum ársfjórðungi samanborið við 13,0% á sama tímabili árið 2017. Hagnaður samstæðunnar á fyrri helmingi ársins 2018 nam 5,0 milljörðum króna og arðsemi var 4,7% samanborið við hagnað 10,5 milljarða króna og arðsemi 9,7% á sama tímabili 2017.

Heildareignir námu 1.174,8 milljörðum króna í lok júní 2018 samanborið við 1.147,8 milljarða króna í árslok 2017 og eigið fé hluthafa bankans nam 206,9 milljörðum króna, samanborið við 225,6 milljarða króna í árslok 2017.

Eiginfjárhlutfall bankans var 21,9% í lok júní en var 24,0% í árslok 2017. Hlutfall almenns eiginfjárþáttar 1 nam 21,8%, samanborið við 23.6% í árslok 2017.

Í fréttatilkynningu frá Arion banka er segir Höskuldur H. Ólafsson, bankastjóri bankans:

„Afkoma bankans á öðrum ársfjórðungi 2018 er í takt við væntingar eftir fremur erfiðan fyrsta ársfjórðung. Góður vöxtur var í hefðbundinni starfsemi bankans og jukust lán til viðskiptavina um 5% á fyrstu sex mánuðum ársins. Vaxtamunur á vaxtaberandi eignir hækkaði í 2,8% á öðrum fjórðungi úr 2,6% á þeim fyrsta og þóknanatekjur jukust um rúmlega fjórðung og tekjur af tryggingastarfsemi meira en fjórfölduðust borið saman við fyrsta ársfjórðung. Efnahagur bankans er sem fyrr sterkur sem gerir bankann vel í stakk búinn til að þjónusta sína viðskiptavini, jafnt fyrirtæki sem einstaklinga.

Það urðu tímamót þegar Arion banki var skráður á markað þann 15. júní að loknu vel heppnuðu útboði þar sem seldur var 28,7% hlutur í bankanum. Margföld umframeftirspurn var í útboðinu og var góður áhugi hjá alþjóðlegum fjárfestum, en um 70% kaupenda í útboðinu voru alþjóðlegir aðilar. Þann 15. júní var Arion banki samtímis tekinn til viðskipta hjá Nasdaq Iceland og Nasdaq Stockholm og var skráning bankans næst stærsta skráningin í Svíþjóð það sem af er ári og sú næst stærsta hér á landi frá upphafi.

Í þessu ferli öllu var ánægjulegt að verða var við áhuga innlendra og erlendra fjárfesta á bankanum og þeirri framtíðarsýn sem við höfum, sem og áhuga þeirra á íslensku efnahagsumhverfi. Vonir okkar standa til þess að góð þátttaka alþjóðlegra fjárfesta muni hafa jákvæð áhrif á fjárfestaumhverfið hér á landi til lengri tíma.

Það er ljóst að eitt af því sem vakti áhuga fjárfesta á bankanum var sterk eiginfjárstaða og möguleikar bankans til að lækka hana í nokkrum skrefum á næstu árum með arðgreiðslum eða endurkaupum á eigin bréfum. Stjórn bankans hefur nú samþykkt að leggja fyrir hluthafafund bankans, sem fram fer í september, að greiða 10 milljarða króna í arð til hluthafa fyrir lok þriðja ársfjórðungs, sem samsvarar 5 krónum á hvern hlut. Einnig höfðu fjárfestar áhuga á stöðu og þróun dótturfélags bankans, Valitor, sem starfar á sviði greiðslumiðlunar hér á landi, í Skandinavíu og í Bretlandi. Hefur bankinn nú fengið alþjóðlega ráðgjafa til liðs við sig til að meta hvernig best sé að haga framtíðareignarhaldi félagsins.

Bankinn kláraði fjögur starfræn verkefni á öðrum fjórðungi. Við teljum að árangur í bankastarfsemi framtíðarinnar muni að verulegu leyti ráðast af því hversu vel bankar ná að innleiða stafrænar lausnir í starfsemi sína. Það var okkur því mikið ánægjuefni að fá verðlaun frá Retail Banker International fyrir stafrænt greiðslumat og íbúðalánaferli.

Jafnframt er unnið að því að koma Stakksbergi, eignarhaldsfélagi kísilverksmiðjunnar í Helguvík, í söluferli á síðari hluta ársins. Bankinn mun halda áfram að skoða hagræðingu eiginfjár og kanna möguleika á útgáfu á víkjandi skuldabréfum á síðari hluta ársins ef markaðsaðstæður leyfa.“