Íslendingar þurfa að einbeita sér að færri málefnum og færri löndum í þróunarsamvinnu og Íslendingar sem sendir eru í friðargæslu eða liðveislu þurfa að koma til baka með þá þekkingu, sem þeir hafa aflað sér, aftur inn í stjórnarráðið. Þörf er á rekstrarúttekt á Háskólum Sameinuðu þjóðanna, sem reknir eru hér á landi, en framlag Íslands til þeirra er ein stærsta einstaka fjárfesting íslenskrar þróunarsamvinnu (14% af heild).

Einnig má íhuga að framkvæmd þróunarsamvinnu verði á einum stað fremur en þeim tveimur sem nú er. Þetta kom fram í máli Þóris Guðmundssonar er hann kynnti áfangaskýrslu um skipulag og framkvæmd þróunarsamvinnu Íslands á opnum fundi á miðvikudaginn. Enn er hægt að gera athugasemdir við skýrsluna en höfundur mun í lokaskýrslunni, að loknu samráðsferli, taka afstöðu til kostanna og leggja fram rökstuddar tillögur til utanríkisráðherra um þróunarsamvinnustarf.

Framlög Íslands til þróunarsamvinnustarfs eru lág miðað við höfðatölu, einnig fer lágt hlutfall framlaga til borgarasamtaka og neyðaraðstoðar. Framlag okkar er undir meðaltali þróunarsamvinnunefndar Efnahags- og framfarastofnunarinnar (OECD/DAC) sem er 0,3% af vergum þjóðartekjum og fer lækkandi. Í fyrra voru veittir 4,3 milljarðar króna, 0,26% af VÞT en í ár verða það 4 milljarðar króna sem áætlað er að nemi 0,22% af VÞT. Í samanburði verja hin norrænu löndin að meðaltali milli 0,7 og 1% af VÞT. Framlög hafa einnig sveiflast mikið síðastliðin ár og getur því verið erfitt að vita fram í tímann hvað er að koma inn í málaflokkinn, sagði Þórir í kynningu sinni.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast tölublaðið hér að ofan undir liðnum Tölublöð .