Bandaríski flugrisinn American Airlines tilkynnti í vikunni að félagið myndi skera niður flugleiðir og fækka starfsfólki.

Sem kunnugt er fór móðurfélag American Airlines, AMR, fram á greiðslustöðvun í lok nóvember sl. og er nú í fjárhagslegri endurskipulagningu.

Flugleiðirnar sem um ræðir eru leggirnir á milli Chigaco og Nýju Deli annars vegar og innanlandsleggurinn á milli Dallas í Texas og Burbank í Kaliforníu hins vegar. Í kjölfari verður um 150 starfsmönnum sagt upp vegna þessa þar sem engin starfsemi verður í Nýju Deli eða Burbank á vegum félagsins.

Þessar breytingar eru svo sem ekki stórvægilega miðað við umfang og rekstur American Airlines. Þá neita forsvarsmenn félagsins því að þessar breytingar tengist greiðslustöðvun móðurfélagsins. Hins vegar er greint frá því á fréttavef Reuters að fleiri breytingar, sem feli í sér niðurlagningu á flugleiðum og uppsagnir starfsmanna, kunni að vera í farvatninu. Þannig verða flugleiðir á milli Bandaríkjanna og Asíu endurskoðaðar sem og einstaka flugleiðir innan Bandaríkjanna, þá sérstaklega til minni borga.

American Airlines.
American Airlines.