Viðmælendur Viðskiptablaðsins á markaði segja að ekki sé undirliggjandi þáttum um að kenna að N1 hefur tekið dýfu á markaði í dag, en þegar þetta er skrifað hefur gengi bréfa félagsins lækkað um 4,84% það sem af er viðskiptadegi í kauphöllinni, í 300 milljón króna viðskiptum

Segja þeir að minnkandi tekjur vegna sjómannaverkfallsins og slíkra þátta séu að hafa áhrif á gengi fyrirtækisins, en hluti afkomu fyrirtækisins byggir á sölu á olíu til flotans.

Fyrri hluti síðasta árs slakt hjá Símanum

Hins vegar megi rekja hækkun bréfa Símans til þess að nú séu hagræðingaraðgerðir á síðasta ári að skila sér.

Fyrri hluti síðasta árs hafi verið slakur hjá fyrirtækinu en nú horfi til betri vegar. Einnig megi rekja hjá Símanum, líkt og sjá mætti hjá Vodafone, að innlenda starfsemin hafi gengið vel, en í tilfelli Vodafone hafi starfsemin í Færeyjum hins vegar dregið úr hagnaði fyrirtækisins.

Annað sem hafi áhrif á hækkun gengis hlutabréfa Símans, sem þegar þetta er skrifað hafa hækkað um 2,95% í 1.053 milljón króna viðskiptum í kauphöllinni, er að stefnt er að því að leggja fram endurkaupaáætlun hlutabréfa fyrir allt að milljarð á næsta aðalfundi.

Stór kaupandi á bréfum Icelandair

Hækkun Icelandair megi svo að hluta til rekja til þess að einn viðskiptaaðili hafi verið búinn að leggja inn pöntun fyrir 60 milljón bréfum við upphaf viðskipta í morgun.

Þegar þetta er skrifað nemur hækkunin 1,22% í tæplega 1,2 milljarða viðskiptum.