Hagræðingarhópur ríkisstjórnarinnar var skipaður í júlí 2013 og var ætlað að leggja til aðgerðir til að hagræða, forgangsraða og auka skilvirkni í rekstri stofnana ríkisins. Í nóvember sama ár skilaði hópurinn ítarlegum tillögum í 111 liðum. Þar af var 101 tillögu var beint til einstakra ráðuneyta og stofnana.

Tíu þessarar 101 tillögu má telja svo almennt orðaðar að erfitt sé að festa fingur á það hvort þær hafi raungerst. Viðskiptablaðinu tókst að afla upplýsinga um stöðu 84 þeirra 91 mælanlegu tillaga sem eftir standa, ýmist beint frá ráðuneytum og stofnunum eða af vefsíðum ríkisaðila.

Stærstum hluta þessara tillagna hefur ekki enn verið hrint í framkvæmd. Hagræðingarhópurinn setti meðal annars fram 37 tillögur um sameiningu ríkisstofnana eða annarra ríkisaðila, en einungis þrjár þeirra hafa raungerst að fullu og þrjár aðrar að hluta.

Yfir helmingi ekki verið hrint í framkvæmd

56 tillögur eru þess eðlis að ekki verður séð að þeim hafi verið hrint í framkvæmd að neinu leyti. Í þessum hópi eru meðal annars þær tillögur sem ekkert hefur verið fjallað um opinberlega síðan tillögum hagræðingarhóps var skilað í nóvember 2013. Um helmingur þessara tillagna snýr að sameiningu ríkisaðila og stofnana, en hinar tillögurnar eru margvíslegs eðlis.

„Kerfið ver sig," segir Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, spurður um það á hverju innleiðing tillagnanna strandar helst.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast pdf-útgáfu af blaðinu með því að smella á hlekkinn Tölublöð .