Hafnarfjarðarbær hefur nú ráðist í miklar hagræðingaraðgerðir sem taka munu gildi um næstu mánaðarmót.

Í tilkynningu frá sveitafélaginu kemur fram að tekjur Hafnarfjarðarbæjar hafa dregist saman frá efnahagshruninu haustið 2008. Fjárhagsáætlanir undanfarinna tveggja ára hafi tekið mið af þessu og gripið hefur verið til margvíslegra hagræðingaraðgerða þar sem höfuðáhersla hafi verið lögð á að standa vörð um velferðar‐ og grunnþjónustu.

Þá kemur fram að nú verði farið í frekari hagræðingaraðgerðir og endurskipulagningu og var starfsmönnum sem hlut eiga að máli  kynntar þær aðgerðir í morgun.

„Á öllum sviðum bæjarins hefur verið tekið mið af breyttum aðstæðum í þjóðfélaginu og starfsemin skipulögð út frá því,“ segir í tilkynningunni.

„Opnunartímum hefur verið breytt, starfsstöðvar sameinaðar, verkefni endurskipulögð og dregið hefur verið úr yfirbyggingu og kostnaði við stjórnun. Stöðugildum hjá bænum  hefur verið fækkað um  20 og breytingar hafa verið gerðar á starfshlutföllum á nokkrum stöðum.“

Þá er talið að þessar breytingar eigi að spara á milli 90 – 100 millj. kr. í rekstri bæjarins á þessu ári.