Flugmálastjórn gaf þann 18. ágúst síðastliðinn út nýtt flugrekstrarleyfi fyrir Air Atlanta Icelandic sem er endapunkturinn á rúmlega sjö mánaða sameiningarferli Íslandsflugs og Air Atlanta Icelandic. Í framhaldi af því verður ráðist í niðurskurð á flugflota félagsins og einnig er gert ráð fyrir fækkun starfsmanna. Félögin voru rekin á sitt hvoru flugrekstrarleyfinu á meðan sameiningarferlinu stóð og voru hömlur settar á hagræðingu þar til sameinað flugrekstarleyfi var gefið út.

Að sögn Hafþórs Hafsteinssonar, forstjóra Avion Group, hefst í beinu framhaldi af þessu hagræðingarferli innan hins sameinaða félags en ekki var unnt að ráðst í það á meðan unnið var að útgáfu flugrekstrarleyfsisins. "Þarna er um að ræða niðurskurð að hluta til en þó erum við fyrst og fremst að sjá einföldun rekstrarins."

Fækkað verður Boeing 737-300/400 vélum í rekstri því ekki þykir hagkvæmt að framlengja leigu á þeim sökum hækkandi innleiguverðs á markaði. Fjórum vélum verður skilað fyrir árslok til eigenda og þrjár vélar, sem eru í eigu félagsins, seldar. Síðustu vélarnar af þessari tegund verða teknar úr notkun hjá félaginu haustið 2006. Á sama tíma verður bætt við hjá Excel Airways í Bretlandi nýjum Boeing 737-800 vélum sem munu að hluta til leysa þær eldri Air Atlanta vélar af hólmi sem hafa flogið fyrir Excel Airways.

Einnig mun félagið halda áfram að taka úr notkun eldri Boeing 747-200 farþegavélar á næstu níu mánuðum sem er liður í endurnýjun flugvélaflotans. Eldri vélum er skipt út fyrir nýrri Boeing 747-300 og 747-400 farþegavélar sem eru hagkvæmari í rekstri. Hlutfallsleg fækkun verður því í flugflota félagsins. "Um fækkun starfsfólks hefur engin ákvörðun verið tekin en það verður líklega ákveðið á næstunni," sagði Hafþór. Hann tók fram að þessi samdráttur á rekstri þeirrar einingar, sem áður féll undir rekstur Íslandsflugs og Air Atlanta, myndi ekki hafa nein áhrif á heildarveltu Avion Group á þessu ári vegna aukinnar starfsemi félagsins í Englandi. Áætlun um veltu félagsins er óbreytt en gert er ráð fyrir að hún verði 1,8 milljarðar dollara.

"Með fækkun og breytingu flugflotans hjá sameinuðu félagi hefur hafist endurskipulagning á yfirbyggingu þess og verður hagrætt á flestum sviðum sem mun skila sér í einfaldari,  markvissari og hagkvæmari flugrekstri," sagði Hafþór.