Eimskip tilkynnti í dag að það hefði sagt upp öllum starfsmönnum Eimskips í Færeyjum og munu uppsagnirnar taka gildi á komandi mánuðum. Þessar uppsagnir koma í kjölfar sameiningar Eimskips við Skipafélag Færeyja þann 17. ágúst síðastliðinn. Fram kemur í tilkynningunni að um sé að ræða nauðsynlega aðgerð sem lið í hagræðingu vegna sameiningar fyrirtækjanna. Gert er ráð fyrir að hluti starfsfólksins verði endurráðinn í sameinaða félaginu en unnið er að skipulagsbreytingum á Skipafélagi Færeyja sem kynntar verða síðar.

Í Vegvísi Landsbankans er bent á að rekstur Skipafélags Færeyja gekk ekki vel á síðasta ári og nam tap félagsins 36 m.kr. (3,1 m.DKK). Að vísu voru óreglulegir liðir sem höfðu áhrif á afkomu ársins í fyrra eins og verkfall og miklar viðgerðir á skipum félagsins sem námu 72 m.kr. (6,5 m.DKK). Hagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) sem hlutfall af tekjum var 3,8% í fyrra og 7,2% árið 2002. Til samanburðar var EBITDA framlegð hjá Eimskip 7% í fyrra og 8,3% 2002. Uppsagnirnar nú eru aðeins einn liður í því að auka framlegðina af rekstrinum í Færeyjum en við búumst við að framlegðin af þessum hluta rekstrarins verði á svipuðum nótum og hjá samstæðunni til lengri tíma, en samkvæmt markmiðum Eimskips er stefnan sett á að EBITDA framlegð nemi 11,3% 2006 segir í Vegvísi Landsbankans.