Stjórnendur í heilbrigðisþjónustunni standa frammi fyrir vandasamara verkefni en þeir hafa áður þurft að takast á við, sagði Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra á fundi með forstöðumönnum heilbrigðisstofnana í gær.

Greint er frá fundinum á vef heilbrigðisráðuneytisins.

Ögmundur lagði ríka áherslu á, að því er segir á vefnum, að sparnaðarkröfum yrði mætt með hagræðingu og skipulagsbreytingum sem hefðu sem allra minnstu röskun í för með sér fyrir sjúklinga.

„Við erum samherjar, samstarfsfólk, við þurfum að hugsa heilbrigðisþjónustuna upp á nýtt, en ég dreg ekki fjöður yfir það að nú verða allir að taka á saman til að ná árangri,” sagði heilbrigðisráðherra.

Á fundinum voru kynntar tillögur að lagabreytingum sem lagðar verða fyrir Alþingi á haustþingi, fjallað var um launa- og skipulagsmál, og farið yfir fjárhagsstöðu heilbrigðisstofnana.