Hagfræðideild Landsbankans spáir því að verðbólga milli nóvember og desember mælist 0,6% en gangi spáin eftir mun 12 mánaða verðbólga lækka úr 8,6% niður í 7,6%, en vísitalan hækkaði um 1,5% í desember í fyrra.

Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans en hagfræðideildin gerir ráð fyrir að fremur litlum verðhækkunum á mat- og drykkjarvörum en telur líklegt að kaupmenn muni nýta sér aukna neyslu í desember og beita tilboðum til að reyna að laða viðskiptavini til sín.

„Líklegt má telja að nokkrar áframhaldandi verðhækkanir verði á fötum, skóm, húsgögnum og heimilisbúnaði,“ segir í Hagsjá.

„Þessir liðir hafa hækkað um tæplega helming frá fyrri hluta árs 2008 en á sama tíma hefur gengisvísitala íslensku krónunnar hækkað um ríflega 60%.“

Hagfræðideildin minnir á að matar- og drykkjarliðurinn hefur hækkað umtalsvert síðustu mánuði og hækkanirnar megi rekja að miklu leyti til breytinga á vörugjöldum og að einhverju leyti vegna veikingar krónunnar þó mjög sé farið að hægja á henni.

„Við teljum fremur ólíklegt að komi til verðhækkana á matvælum og drykkjarvörum í desember, en líklegt er að neytendur horfi betur nú en oft áður á krónurnar áður en þeim er varið í neyslu og kaupmönnum því sniðinn þrengri stakkur til verðhækkana,“ segir í Hagsjá.

„Á móti kemur, sér í lagi með hálfvaranlegar neysluvörur eins og fatnað og húsgögn, að kaupmenn gætu haft tilhneigingu til verðhækkana, þar sem innkaupaverð í krónum talið hefur hækkað ríflegar en söluverð frá fyrri hluta árs 2008 og desember verður að öllum líkindum besti sölumánuðurinn næsta misserið. Þá hefur eldsneytisverð lækkað óverulega frá síðustu verðmælingu Hagstofunnar.“

Sjá nánar í Hagsjá.