Í endurskoðaðri útgáfuáætlun Íbúðalánasjóðs (ÍLS) frá því í júlí gerði sjóðurinn ráð fyrir að veita 9-11 milljarða króna í útlán á þriðja ársfjórðungi. Til þess að sú áætlun gangi eftir þarf sjóðurinn að lána a.m.k. 5 milljarða króna í september sem verður að teljast óraunhæft í ljósi takmarkaðra umsvifa á fasteignamarkaði undanfarið.

Þetta kemur fram í Hagsjá, vefriti Hagfræðideildar Landsbankans en eins og fram kom fyrr í dag veitti Íbúðalánasjóður ný útlán að andvirði tæplega 1,6 milljarða króna í ágústmánuði samkvæmt mánaðarskýrslu sjóðsins. Útlán drógust saman um 36% frá fyrri mánuði en það sem af er þriðja ársfjórðungi nema útlán ÍLS 4,0 milljörðum króna.

Í Hagsjá kemur fram að útlán hvers mánaðar hafa jafnframt farið lækkandi það sem af er árinu og verið undir 3 milljörðum króna frá því snemma í vor. Mest hafa þau þó farið í tæpa 9 milljarða í júlí 2008 fyrir utan sumarbyrjun 2004 þegar útlán námu tæpum 12 milljörðum króna.   Í endurskoðaðri útgáfuáætlun áætlaði sjóðurinn að gefa út íbúðabréf fyrir 7-9 milljarða króna á þriðja fjórðungi. Það sem af er fjórðungnum hefur hins vegar ekkert verið gefið út.

Fyrstu átta mánuði ársins hefur sjóðurinn veitt 54-59% af þeim lánum sem útgáfuáætlunin nær til. Á sama tíma hefur hann gefið út 40-46% af áætlaðri íbúðabréfaútgáfu ársins.