Á meðan arðsemi í byggingariðnaði jókst varð mikil fjárfesting í íbúðahúsnæði. Afleiðing þess er að um þessar mundir er mikið framboð af íbúðahúsnæði og því þrýstingur til frekari lækkunar íbúðaverðs.

Þetta kemur fram í Hagsjá, vefriti Hagfræðideildar Landsbankans en samkvæmt tölum Hagstofunnar frá því gær hækkaði byggingarkostnaður um 0,65% milli mánaða í september.

Í Hagsjá kemur fram að eins og verið hefur undanfarið eru það efnisliðir sem eru meginvaldar svo mikillar hækkunar en vinnuliðir haldast að þessu sinni óbreyttir annan mánuðinn í röð. Þá hækka opinber gjöld um rúmt prósent.

Þróunin undanfarna tólf mánuði sýnir að vinnuliðir draga aftur af hækkun vísitölunnar sem mælist nú 10,6%. Af undirliðum hefur pípulögn hækkað mest undanfarna tólf mánuði, um 28,3%, og dúkalögn þar á eftir, eða um 27,5%. Þetta eru jafnframt þeir liðir sem hækka langmest á milli mánaða í mælingu Hagstofunnar, um 4-5%, meðan aðrir liðir hækka um minna en 1%. Sjá nánar í Hagsjá.